Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Smitin í gær tengjast smiti á landamærunum

12.02.2021 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Innanlandssmitin fjögur sem greindust í gær tengjast smiti á landamærunum. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að ef fólk ákveður að fara í fimm daga sóttkví með einhverjum sem kemur að utan þá eigi það á hættu að lenda í tveggja vikna einangrun að auki ef það greinist með veikina. Sama hætta sé uppi ef fólk sækir þá sem eru að koma frá útlöndum á flugvöllinn.

„Þetta eru smit sem tengjast landamærasmiti,“ segir Þórólfur. „Við vitum að þau geta gerst. Það er að segja. Einhver sem greinist á landamærunum og er í einangrun eða sóttkví, allt eftir því hvernig greiningin er, getur smitað út frá sér til sinna nánustu eða fólks sem er í næsta umhverfi. Þannig gerist þetta náttúrulega. Svo er bara spurningin: Tekst að stoppa það þannig? Þessi sem greindust í gær voru í sóttkví. En ef það tekst ekki þá getur þetta borist út í samfélagið. Ef það er farið að slaka alltof mikið á og fólk passar sig ekki þá er greið leið fyrir nýja hrinu að fara af stað.“

Á mánudag lýsti Jón Pétur Jónsson, sviðsstjóri landamærasviðs Ríkislögreglustjóra, því að stór hluti farþega sem kom frá útlöndum um helgina hefði verið sóttur á flugvöllinn. Jafnframt hefur fólk lýst því í viðtölum að það hafi sótt einhvern á flugvöllinn og ákveðið að fara með því í sóttkví.

Þórólfur segir að þetta geti vissulega skapað hættu. „Ef fólk passar sig, ákveður að ná í sína nánustu og fer í sóttkví með fólki og heldur sig við það þá getur það gengið. Ég minni á að ef sá sem er að koma er smitaður og smitar hina sem eru í sóttkví þá þýðir það tvær vikur í einangrun og  tilheyrandi smithættu fyrir aðra. Þetta getur orðið þannig koll af kolli. Þetta er ekki góð lausn fyrir neinn þannig að ég myndi ráða frá því að fólk gerði þetta.“