Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjálfkeyrandi strætisvagnar framtíðin

Mynd: RÚV / RÚV
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, kveðst vonast til að hægt verði að gera tilraun með sjálfkeyrandi strætisvagna á götum innan tveggja ára. 

„Þetta eru litlir bílar, svona geimverulegir í útliti og taka um tíu farþega. Þeir eru því ekki að koma í stað Borgarlínu eða hefðbundinna tólf metra strætóa,“ sagði Jóhannes í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun. Sjálfkeyrandi vagnar séu framtíðin og í stöðugri þróun.

„Okkur langar að prófa að gá hvort þetta virki hérna. Við þurfum smá fjármagn og samstarfsaðila. Við höfum verið að ræða við Faxaflóahafnir um akstur milli hafna þegar skemmtiferðaskipin koma.“

Vagnar af þessu tagi segir Jóhannes að geti hentað í úthverfum til að keyra fólk inn á stóru leiðirnar, og í skólaumhverfi enda sjálfbærir, rafdrifnir og hljóðlátir. Jóhannes segir ekkert fast í hendi ennþá en sjálfkeyrandi vagnar séu markmið Strætó til framtíðar. 

Hann segir tilraunaverkefni í í Osló í Noregi og í Helskinki í Finnlandi ganga vel en þar sé starfsmaður um borð, enda sé lagaumhverfið og tryggingamál enn í þróun. „Það er því margt sem þarf að yfirstíga áður en þetta fer í fulla notkun.“

Þótt launakostnaður sé stór hluti af rekstri strætisvagna gerir Jóhannes ekki ráð fyrir að  mannshöndin hverfi ekki alveg, fólk verði enn í stjórnstöðvum og þess háttar.

Vagnarnir fari ekki hratt yfir í dag, þeir séu búnir skynjurum og ratsjám sem stöðva þá við allar hindranir. Jóhannes að sérakbraut henti vel fyrir stóra sjálfkeyrandi vagna en yfirstíga þurfi ýmsar hindranir áður en það verði að raunveruleka. Því séu líklega tíu ár í slíka vagna.

„Við höfum verið að reyna að selja þá hugmynd að það gæti verið snjallt að reyna vagnana við íslenskar aðstæður. Svipaðar aðstæður eru auðvitað í Finnlandi og kannski erum við það lítil að þeir nenna ekki að tala við okkur, svona eins Pfizer.“

Jóhannes segir rafmagnsvagna mjög þægilega og hafa marga kosti umfram olíuknúna vagna, fyrst og fremst sé rafmagnið mun ódýrara en dísilolía. Nú eru 14-15 stórir, rafdrifnir vagnar í notkun sem komast um 270 kílómetra á hleðslunni. Þeir séu hlaðnir yfir nótt og einu sinni yfir daginn.