Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Miðborgin mætir Garðabæ í Gettu betur í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir - RÚV

Miðborgin mætir Garðabæ í Gettu betur í kvöld

12.02.2021 - 11:54

Höfundar

Það mætast stálin stinn í Gettu betur viðureign kvöldsins þegar Fjölbrautarskólinn í Garðabæ og Menntaskólinn í Reykjavík eigast við. MR eru ríkjandi sigurvegarar Gettu betur en FG hrepptu hljóðnemann árið 2018.

Eins og vanalega eru liðin skipuð keppendum með fjölbreytta þekkingu sem saman geta svarað slungnum spurningum þeirra Jóhanns Alfreðs Kristinssonar, Laufeyjar Haraldsdóttur og Sævars Helga Bragasonar. Kynnir keppninnar er sem fyrr Kristjana Arnarsdóttir. 

Keppendur í liði FG eru Sara Rut Sigurðardóttir, Dagmar Íris Hafsteinsdóttir og Kjartan Leifur Sigurðsson. Liðið hefur, að eigin sögn, yfirgripsmikla þekkingu á vísindum, menningu og íþróttum sem ætti að koma að góðum notum í viðureign kvöldsins. 

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / RÚV

Keppendur í liði Menntaskólans í Reykjavík eru öll alin upp vestan Elliðaáa en telja sig þó sleip í landafræði, íslenskum embættismönnum og bókmenntum. MR er sem fyrr segir ríkjandi meistari í Gettu betur en þó hafa orðið breytingar á liðinu frá síðasta ári. Liðsmenn MR að þessu sinni eru Víkingur Hjörleifsson, Hallgrímur Árni Hlynsson og Ingibjörg Steinunn Einarsdóttir. 

Mynd: RÚV / RÚV

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, verður í beinni útsendingu á RÚV klukkan 19:40 í kvöld. Þetta er önnur viðureign átta liða úrslita keppninnar en í síðustu viku hafði Kvennaskólinn betur gegn liði Menntaskólans í Kópavogi.