Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Meiriháttar að vera búnir að koma þessu í gang“

12.02.2021 - 19:37
Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði var opnað í dag, rúmum þremur vikum eftir að stórt snjóflóð olli þar tjóni upp á tugi milljóna. Umsjónarmaður svæðisins segir ekkert að óttast.

Lyfturnar sluppu við tjón

Stór snjóflóð féll á skíðasvæðið þann 20. janúar með þeim afleiðingum að skíðaskáli og geymslugámar eyðilögðust algerlega. Lyfturnar sjálfar sluppu við tjón, og nú þremur vikum síðar er búið að opna á ný.  Egill Rögnvaldsson umsjónarmaður skíðasvæðisins er ánægður með að geta opnað á ný.

Sjá einnig: „Ég hefði getað verið kominn inn í skálann“ 

„Eftir það sem á undan er gengið þá er náttúrulega meiriháttar að vera bunir að koma þessu í gang. Ég verð nú að segja það eins og er að ég sagði í upphafi að þetta færi í gang svona á milli 11. og 13. febrúar og núna er 12. febrúar þannig að þetta tókst bara nokkuð vel,“ segir Egill.

Hefur ekki undan við að svara fyrirspurnum

Og skíðavertíðin fer vel af stað. „Ég hef bara ekki haft undan við að svara fyrirspurnum, hvort sem það er sms, tölvupóstur eða hringingar. Það er greinilega straumur af fólki norður í land.“

Egill segir að vel sé fylgst með snjóalögum og snjóflóðahætta reglulega metin. „Það var einmitt tekið út í gær, þá var þetta dálítið veikt. Svo var þetta aftur tekið út í morgun og þá hafði það bara töluvert breyst og þetta er bara nokkuð stöðugt þar sem við erum núna í dag.“

„Þetta bara verður ekki betra“

Tveir ferðalangar sem fréttastofa rakst á sögðu svæðið jafnast á við ítölsku aplana. „Ferðin byrjaði á miðvikudaginn eftir hádegi í Bláfjöllum þegar það var skellt í lás á nefið á okkur. Þá voru bara góð ráð dýr, og drífa sig norður. Tókum Tindastól í gær, siglufjörð í dag, Dalvík á morgun. Þetta bara verður ekki betra,“ sagði Baldvin Orri Þorkelsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV