Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögmenn Trump segja ákærur „pólitíska hefndaraðgerð“

12.02.2021 - 19:01
Michael van der Veen, lögmaður Trump i þinghúsinu í dag. - Mynd: EPA-EFE / The Washington Post POOL
Röðin var komin að lögmönnum Donalds Trump í dag að taka til varna í ákæruferli gegn forsetanum fyrrverandi á Bandaríkjaþingi. Þeir verjast ásökunum Demókrata um að forsetinn hafi með orðum sínum hvatt til árásar á þinghúsið daginn sem kjör Joes Biden var staðfest.

Lögmennirnir reyna að færa fyrir því rök að ekki eigi að sakfella Trump og hafa sýnt myndbönd af Demókrötum eftir kosningarnar 2016 sem sögðu þá að brögð hafi verið í tafli. Þá segja lögmennirnir af og frá að forsetinn hafi hvatt til ofbeldis og líkja ákæruferlinu við nornaveiðar. 

„Ákæruskjalið sem nú er til umfjöllunar í öldungadeildinni er óréttlátt pólitísk hefndaraðgerð í engu samræmi við stjórnarskrána. Þessi hroðalega misbeiting á stjórnarskránni stuðlar einungis að aukinni sundrung þjóðarinnar þegar við ættum að reyna að ná saman um sameiginleg forgangsmál,“ sagði Michael van der Veen, lögmaður forsetans fyrrverandi meðal annars í málflutningi sínum i dag. 

Lögmennirnir gera ráð fyrir að nota fjórar klukkustundir af þeim sextán sem þeim var úthlutað til að svara fyrir ákæru fulltrúadeildarinnar. Sækjendur lögðu fram sínar sannanir í gær og fyrradag, meðal annars myndskeið frá árásinni. Þeir fullyrtu að ef Trump yrði ekki sakfelldur væri hætta á annarri eins árás öfgahópa. Sextíu og sjö þingmenn öldungadeildarinnar þurfa að styðja ákæruna til að forsetinn fyrrverandi verði sakfelldur. Að mati fjölmiðla Vestanhafs eru litlar líkur til að það gerist.