Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lækkað úr neyðarstigi í hættustig

12.02.2021 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur ákveðið að færa almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig vegna COVID-19. Breytingin hefur ekki áhrif á þær sóttvarnaaðgerðir sem eru í gildi og afléttingunni fylgja því ekki breytingar gagnvart almenningi að því segir í tilkynningu.  Neyðarstigi var lýst yfir 4. október þegar þriðja bylgja faraldursins hófst og smitum tók að fjölga verulega.

Neyðarstigi var fyrst lýst yfir fyrir tæpu ári, það var 6. mars 2020.  Síðan þá hafa 6.033 kórónuveirusmit verið staðfest, 46.500 farið í sóttkví og nærri hálf milljón sýna tekin innanlands og á landamærum. 29 hafa látist úr COVID-19 hérlendis. Frá því að neyðarstig var sett á kom upp hópsmit á nokkrum stöðum, það kallaði á hertar sóttvarnareglur og frekari takmörkun á samkomum segir í tilkynningunni þar sem vísað er á covid.is um frekari upplýsingar um faraldurinn og sóttvarnaaðgerðir í gildi.