Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klósettseta Hitlers seld á tvær milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Klósettseta sem Adolf Hitler settist að öllum líkindum á í orlofshúsi sínu í Berghof í bæversku Ölpunum var selt á uppboði í Maryland í Bandaríkjunum á dögunum. Að sögn norska ríkisútvarpsins NRK var setan seld fyrir 15 þúsund bandaríkjadali, jafnvirði nærri tveggja milljóna króna.

Klósettsetan var meðal fjölda muna úr fórum nasista sem seldir voru á uppboði hjá uppboðshúsinu Alexander Historical Auctions. Setan var hirt úr orlofshúsinu af bandaríska hermanninum Ragnvald Borch, sem NRK segir vera af norskum ættum. Borch var meðal fyrstu bandarísku hermannanna í Berghof árið 1945. Hann talaði reiprennandi þýsku og frönsku og var sendur til þess að ná sambandi við franska hermenn.

„Hvar heldurðu að rass foringjans hafi verið?“

Þegar Borch kom til Berhof var húsið illa farið. Breskar herflugvélar höfðu varpað sprengjum á það, og sérsveitarmenn SS höfðu lagt eld að því. Frönsku og bandarísku hermennirnir sem voru fyrstir á staðinn leituðu í rústunum, og fengu leyfi til þess að taka það sem þeir vildu. Auk klósettsetunnar tók Borch meðal annars tvö heilleg olíumálverk. Sagan segir að annar hermaður hafi spurt Borch hvers vegna í ósköpunum hann hafi viljað setuna. Þá á Borch að hafa svarað: „Hvar heldurðu að rass foringjans hafi verið?"

Klósettsetan var svo send til Bandaríkjanna með pósti. Heimatökin voru hæg fyrir Borch, því hann var sjálfur í herlögreglunni og konan hans vann hjá póstinum í Bandaríkjunum. Setan var svo höfð til sýnis í kjallara heimilis fjölskyldunnar í New Jersey. Samkvæmt syni Borch þótti honum ánægjulegt að vita að Hitler hafi gengið örna sinna á þessari setu.

Meðal annarra muna í eigu Hitlers sem seldir voru á uppboðinu var rakbolli úr heimili hans í Berlín, skreytt með mynd af honum sjálfum. Auk þess seldust fjögur hár sem fundust í hárbursta hans. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV