Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm gamaldags en glæný fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Rough Trade - Ah bah d'accord

Fimm gamaldags en glæný fyrir helgina

12.02.2021 - 13:00

Höfundar

Það er fortíðarbragur á flestum lögum Fimmunnar að þessu sinni þar sem tónlistarfólkið grefur niður í fortíðina í leit að nýjum hljóm. Við fáum franskt töffararokk frá Juniore; Tokyo táningurinn Nana Yamato er með hressandi popp; Caamp leita í smiðju Lou Reed, Black Country, New Road bjóða upp á skrítnipopp og að lokum er það löðrandi súkkulaði-sjöu-fönk frá henni H.E.R.

Juniore - Un Jour Ou L'Autre

Parísartríóið Juniore er löðrandi nett töffaradæmi þar sem maður fær reglulega á tilfinninguna að maður sé staddur í svart hvítri Tarantino-mynd sem gerist í París 1964 en samt líka 2024. Anna Jean er aðaltöffarinn í tríóinu. Hún hefur gefið út þrjár plötur Juniore, Ouh là là, Un, Deux, Trois og nokkra söngla til viðbótar og Un Jour Ou L'Autre er einn slíkur.


Nana Yamato - Do You Wanna

Nana Yamato er frá Tokyo og tónlist hennar dansar á brúninni á milli draumkennds popps og hressandi indírokks. Fyrsta plata hennar Before Sunrise kom út í síðustu viku og hefur vakið töluverða athygli tónlistarnörda. Sumum þótti lagið Do You Wanna vera með því hressasta sem kom út í janúar.


Caamp - Officer of Love

Hljómsveitin Caamp er frá Aþenu í Ohio og spilar fullorðins indí með áhrifum frá mýkri lögum Velvet Underground sem er bara nákvæmlega eftir bókinni. Strákarnir hafa gefið út þrjár plötur sem hafa ekki vakið mikla athygli en lag þeirra Peach Fuzz sló í gegn fyrir tveimur árum og nú er það sama að gerast fyrir Officer Of Love sem er af væntanlegri plötu.


Black Country, New Road - Track X

Það hefur verið mikil spenna í bresku pressunni fyrir For The First Time, fyrstu plötu póstpönksveitarinnar Black Country, New Road sem gefur út á Ninja Tune. Platan kom út síðasta föstudag og söngullinn Track X er svo sem ekki að fara þjóta upp einhverja vinsældarlista en er skemmtilegt og öðruvísi.


H.E.R. - Fight For You

Fight For You er eðal súkkulaði-sjöu-fönk af feitari gerðinni frá bandarísku tónlistarkonunni H.E.R. Lagið er úr kvikmyndinni Judas and the Black Messiah og textinn þykir líka vera í ætt við gamla fönkið þar sem barist er fyrir samfélagslegum jöfnuði og réttlæti.


Fimman á Spottanum