Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bankarnir „furðu sprækir þrátt fyrir efnahagsástandið“

12.02.2021 - 19:01
Mynd: RÚV / RÚV
Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja eykst um sjö prósent á milli ára. Prófessor í hagfræði segir faraldurinn hingað til ekki hafa haft mikil áhrif á rekstur þeirra og spyr hvort engin tengsl séu á milli raunhagkerfisins og fjármálakerfisins.

„Reyndar verður nú að gera ákveðinn fyrirvara við þær tölur vegna þess að við vitum auðvitað að það dundi ýmislegt á efnahagslífinu. Það getur vel verið að það muni á endanum skila sér í einhverjum útlánatöpum fyrir bankana,“ segir Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði.

Gylfi segir áhrif faraldursins á bankana ekki komin fram. „Fjármálamarkaðir um heim allan - og bankar eru auðvitað hluti af þeim - hafa verið furðu sprækir þrátt fyrir efnahagsástandið. Eiginlega svo að maður spyr sig eiginlega eru engin tengsl á milli raunhagkerfisins og fjármálakerfisins,“ segir hann.

Hagnaður Landsbankans dregst saman um 42 prósent á milli ára, hagnaður Íslandsbanka um tuttugu prósent en hagnaður Arion banka ellefufaldast, en vegna erfiðleika í rekstri dótturfélaga og niðurfærslu eigna hagnaðist bankinn einungis um 1,1 milljarð árið 2019.

„Það er auðvitað ekki erfitt að gera betur en það. Það er nú væntanlega það sem er að gerast en afkomutölurnar eru ekkert þannig séð þannig að þær stingi í stúf við það sem maður teldi eðlilegt í rekstri banka,“ segir Gylfi.

Arðsemi eigin fjár Arion banka eykst um 5,9 prósentustig milli ára en arðsemi Íslandsbanka dregst saman um 2,8 prósentustig og Landsbankans um 3,6 prósentustig. Athygli vekur að bankaráð Landsbankans leggur til að 4,5 milljarða króna arður verði greiddur til ríkissjóðs þrátt fyrir minni arðsemi.

„Það er svona nánast bara innanhúsfærsla hjá ríkinu því að ríkið er eigandinn og hvort ríkið fær þennan pening eða á hann inn í Landsbankanum skiptir ekki alveg höfuðmáli á meðan að bankinn er að fullu í eigu ríkisins,“ segir Gylfi.