Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Varaþingmaður Samfylkingarinnar segir sig úr flokknum

11.02.2021 - 22:04
Mynd með færslu
 Mynd: Samfylkingin
Jóhanna Vig­dís Guð­munds­dóttir, vara­þing­maður Sam­fylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum. Í bréfi til stjórnar flokksins segir hún uppstillinganefnd flokksins í Reykjavík senda sér og öðru rótgrónu Samfylkingarfólki harkaleg skilaboð með því að skipa nýliða í þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, en hún gaf kost á sér í forvali flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í haust. Framboðslistar flokksins verða kynntir um helgina og þá verður kosið um þá.

„Í stuttu máli þá er Samfylkingin ekki flokkur sem mig langar til að starfa með eða í lengur,“ segir Jóhanna spurð um ástæðu ákvörðunarinnar.

Hvers vegna? „Eigum við ekki bara að segja að stjórnmál séu eins og fótbolti: það er alltaf best ef allir spila eftir sömu reglum.“

Jóhanna var í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður fyrir síðustu alþingiskosningar. Hún gaf kost á sér í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi kosningar og sóttist eftir að leiða lista í öðru hvoru kjördæminu. Hún segir að sér hafi boðist sæti talsvert neðar á lista. 

„Það er ekki í samræmi við það sem ég hef lagt af mörkum fyrir flokkinn og hef fram að færa. Ég er varaþingmaður og hef reyndar setið á þingi. Og hef það mikla reynslu og þekkingu að mér dettur ekki í hug að taka sæti neðar heldur en það sem ég hafði ákveðið. Forystusætið, þá á ég við annað tveggja efstu. Auðvitað voru þetta vonbrigði. Sannarlega. Ég ætla ekkert að fara leynt með það, það er engin ástæða til.“

Hefurðu hug á að bjóða þig fram fyrir annan flokk eða starfa með öðrum flokki? „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það.“

Bréf Jóhönnu til stjórnar Samfylkingarinnar:

Kæra samstarfsfólk,
Taugar mínar hafa lengi legið til Samfylkingarinnar, sem var ástæða þess að ég ákvað að leggja mitt af mörkum til að taka þátt í starfi flokksins þegar stemmingin fyrir honum var í algjöru lágmarkið árið 2016 - og fyrirséð var að mikið uppbyggingarstarf væri fyrir höndum. Síðan hef ég meðal annars setið á Alþingi sem varaþingmaður og sinnt þar störfum í fjárlaganefnd, mótað nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í nefnd nýsköpunarráðherra, leitt öflugt málefnastarf menntamálanefndar Samfylkingarinnar, auk þess að sitja í stjórnum SffR og Kvennahreyfingarinnar, og framkvæmdastjórn flokksins.

Það var því afar ánægjulegt að sjá áhuga fólks á þátttöku í flokksstarfinu aukast, að einhverju leyti í takt við gott gengi í skoðanakönnunum. Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér vonbrigði að uppstillingarnefnd í Reykjavík kjósi að bjóða nýliðum, hæfu fólki sem sannarlega er meira en velkomið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir kosningar til Alþingis næsta haust.

Þetta eru ekki bara harkaleg skilaboð til mín persónulega heldur ekki síður til annarra í grasrót Samfylkingarinnar - sem hafa lagt ómælda uppbyggingarvinnu af mörkum undanfarin ár.

Sannarlega er ég seinþreytt til vandræða, en þegar mér ofbýður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum. Ég virði niðurstöðu uppstillingarnefndar og vilja forystu flokksins. Um leið og ég þakka ykkur, vinum mínum og samferðafólki í Samfylkingunni, fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin ár segi ég mig hér með frá varaþingmennsku, öllum ábyrgðarstörfum innan flokksins, og úr Samfylkingunni.

Það er hægt að finna kröftum sínum farveg með ýmsu móti og ég mun því beita mér fyrir þeim málefnum sem ég brenn fyrir; menntun og nýsköpun, á öðrum vettvangi.
Gangi ykkur sem allra best í ykkar störfum.
Með vinsemd og virðingu,
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir