Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja að umhverfisgjald yrði íþyngjandi

11.02.2021 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingsályktunartillaga tveggja þingmanna Vinstri grænna um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld yrði íþyngjandi fyrir heimilin, næði hún fram að ganga. Þetta kemur fram í umsögnum Hveragerðisbæjar og Félags íslenskra bifreiðaeigenda um tillöguna. Hornafjörður varar við hækkunum á gjöld á einkabíla í sinni umsögn, Vestfjarðarstofa segir að tillagan sé miðuð við höfuðborgarsvæðið en Samband íslenskra sveitarfélaga telur sjálfsagt að þessi möguleiki sé metinn.

Ólafur Þór Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmenn VG, lögðu þingsályktunartillöguna fram í október í fyrra og er hún nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í henni segir meðal annars að gjaldtaka sveitarfélaga vegna bílaeignar þekkist varla nema í formi bílastæðagjalda og óbeint í formi gatnagerðargjalda. Sveitarfélögum hafi ekki tekist að stemma stigu við einkabílanotkun og Ísland er meðal þeirra landa þar sem einkabílaeign er hvað mest á hvern íbúa. Almenningssamgöngur hafi að vissu leyti liðið fyrir þessa stefnu, sem og annar umhverfisvænn ferðamáti. 

„Með heimild til álagningar umhverfisgjalda væru möguleikar sveitarfélaga til að bæta umhverfið og styrkja gjaldstofna sína í því skyni auknir. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að ráðherra láti kanna möguleika til þessa í núverandi lagaumhverfi og skili Alþingi skýrslu um athugunina á vorþingi,“ segir í tillögunni.

Í umsögn FÍB er varað við því að sveitarfélögin fái vald til þess að skattleggja  bíla í því skyni að draga úr kostnaði við viðhald og hreinsun gatna og vega. Mikill þjóðhagslegur ávinningur sé af almennri bílaeign og -notkun, það auki hreyfanleika fólks og styrki dreifðari byggðir.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar tekur í svipaðan streng í umsögn sinni. Þar segir að landfræðilegar staðreyndir séu slíkar hér á landi að erfitt sé fyrir þorra þjóðarinnar að hafna einkabílnum. Ríkisvaldið ætti fremur að efla almenningssamgöngur en leggja álögur á bíleigendur. 

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að sjálfsagt sé að möguleikar sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld séu metnir, það sé í samræmi við stefnumörkun sambandsins. Þar er bent á að hingað til hafi ný gjöld sem Alþingi samþykki runnið í ríkissjóð þótt eðlilegt væri að nærumhverfið nyti þeirra.

Hornafjarðarbær segir í sinni umsögn að það væri jákvætt skref að innleiða umhverfisgjöld hjá sveitarfélögunum. Aftur á móti er varað við aukinni álagningu gjalda á einkabílinn, íbúar í dreifbýli verði að komast leiðar sinnar  á einkabílum þar sem engir aðrir samgöngumöguleikar séu fyrir hendi.

Í umsögn Vestfjarðarstofu segir að efni þingsályktunartillögunnar sé mjög miðað við aðstæður á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningssamgöngur séu í mikilli uppbyggingu. Á landsbyggðinni sé þörfin fyrir að eiga tvo bíla oft mikil og þá þurfi íbúar þar oft að sækja þjónustu um langan veg.