Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Meghan vann mál gegn Mail

epa09004868 (FILE) - Britain's Meghan, the Duchess of Sussex, smiles during a visit to the University of Johannesburg, in Johannesburg, South Africa, 01 October 2019 (reissued 11 February 2021). The Duchess of Sussex has won her High Court privacy claim against the a British newspaper over the publication of a letter to her father Thomas Markle.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska slúðurblaðinu Mail on Sunday var óheimilt að birta bréf sem Meghan hertogaynja af Sussex og eiginkona Harrys Bretaprins sendi Thomas Markle föður sínum. Þetta var niðurstaða hæstaréttar í Bretlandi í einkamáli hertogaynjunnar gegn Associated Newspapers Limited - útgefanda blaðsins.

Hertogaynjan sendi föður sínum bréfið í ágúst 2018, fimm mánuðum eftir að hún og Harry giftu sig, en lítil samskipti voru á milli feðginanna á þessum tíma.  Í bréfinu lýsir Meghan yfir vonbrigðum sínum og hryggð yfir því að faðir hennar hafi ákveðið að tjá sig á neikvæðan hátt við fjölmiðla um samskipti þeirra og fyrir að fara með ósannindi um hana. 

Í úrskurðinum segir að bréfið hafi að mestu leyti fjallað um tilfinningar og líðan Meghan. Því hafi verið um einkamál að ræða og aðrir hafi ekki haft neina heimild til að birta það án hennar leyfis.

Meghan sendi frá sér yfirlýsingu eftir að niðurstaða dómsins lá fyrir og þar segir að hún sé þakklát fyrir niðurstöðuna. „Fyrir þessi blöð er þetta leikur. Fyrir mig, og svo marga aðra, er þetta raunveruleikinn, raunveruleg samskipti fólks og raunveruleg sorg,“ segir hertogaynjan í yfirlýsingunni.