Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Með 20 milljóna yfirdrátt: „Ég er bara búin á því“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu hefur neyðst til að taka 20 milljóna króna yfirdrátt vegna COVID-kostnaðar, launahækkana og vanreiknaðra daggjalda. Hjúkrunarforstjórinn segir að heimilið hafi aldrei verið jafnilla sett fjárhagslega. Hún segir að hún hafi neyðst til þess að segja upp starfsfólki, og að hún sjálf sé „búin á því“.

Hjúkrunarheimili hafa þurft að fá yfirdrátt og sum stefna í þrot vegna þess að greiðslur frá Sjúkratryggingum vegna aukakostnaðar í tengslum við faraldurinn hafa ekki borist. Þetta sagði formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í fréttum í gær. Hann sagði að heimilin ættu rúman milljarð inni. Forstjóri Sjúkratrygginga segir að gögn vanti frá sumum heimilum svo hægt sé að greiða peningana út.

Eitt þeirra hjúkrunarheimila sem hafa þurft að steypa sér í skuldir er Lundur á Hellu.

„Við erum með 20 milljóna króna yfirdrátt og útistandandi um 15 milljónir þannig að við höfum aldrei verið jafnilla sett, fjárhagslega,“ segir Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarforstjóri.

Hvað skýrir þessa stöðu í stuttu máli?

„Við erum í fyrsta lagi að fá röng daggjöld vegna mistaka í skráningu árin 2017 og 2018. Þannig að við erum langt undir í daggjöldum og erum búin að bíða allt árið 2020 eftir svörum og að fá leiðréttingu, en fáum ekki svör frá Sjúkratryggingum.“

Að skila lyklunum

Þá segir Margrét að launahækkanir í fyrra hafi kostað heimilið hátt í 20 milljónir afturvirkt, en engar launabætur hafi komið á móti. Þá sé kostnaður vegna COVID kominn í átta milljónir. Nauðsynlegt hafi reynst að ráðast í hagræðingu vegna þessa.

„Já mjög mikið. Við erum með allar klær úti og höfum sagt upp starfsfólki og þetta er bara hundleiðinlegt.“

Hefur þessi staða bitnað á heimilisfólki?

„Nei ekki ennþá. En ég veit ekki hvernig þetta endar ef við fáum ekki leiðréttingu og fáum ekki greiddan þennan kostnað. Það væri bara að skila lyklinum, en það er ekkert í boði í okkar tilfelli. En það væri best.“

Margrét segir að þessi staða sé farin að taka mjög á andlega.

„Já ég segi bara, ég er bara búin á því. Ég viðurkenni það og er farin að tala um það út á við að þetta er ekkert hægt. Það er ekki hægt að reka heimili undir þessum kringumstæðum. Ég hef ekki fundið fyrir því áður, en þetta er ekki hægt.“