Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lokun í faraldri bætti líf spilafíkla

11.02.2021 - 19:51
Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. - Mynd: RÚV / RÚV
Íslendingar töpuðu 3,7 milljörðum í spilakössum árið 2019 og segja Samtök áhugafólks um spilafíkn að á bak við þessa upphæð séu ekki margir einstaklingar. Spilakassar hafa verið lokaðir í faraldrinum vegna sóttvarnaráðstafana. Alma Hafsteinsdóttir, formaður samtakanna, segir að lokunin hafi breytt lífi spilafíkla til hins betra. Nú sé tíminn til að loka þeim fyrir fullt og allt. Það sé hlutverk ríkisins að fjármagna opinberar stofnanir og almennings að hjálpa góðgerðarfélögum.

Rætt var við Ölmu í Kastljósi í kvöld. Hún segir að hugmyndin að baki lögum um að leyfa spilakassa hafi verið sú að lítið fjármagn komi frá mörgum. „Þetta átti sjálfsagt að vera skemmtileg viðbót, ég mun nú seint mæla með henni, en staðreyndin sem blasir við í dag er að við erum að taka frá ofsalega fáum,“ segir hún. Starfsemin í dag sé rekin á spilafíklum. „Þetta eru spilafíklar sem eru að setja allt þetta fjármagn í spilakassana,“ segir Alma sem telur að komið sé nóg af slíkri starfsemi. 

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir hér á landi á umfangi og eðli spilafíknar og segir Alma slíkt sárlega vanta. „En það sér það hver maður sem kynnir sér þessa starfsemi að þarna er ekki um að ræða bara hinn almenna borgara sem er að staldra við þarna og leggja til eitt eða tvö þúsund krónur.“ Hún segir brýnt bæði að hætta starfseminni og einnig að bjóða upp á heildstæða meðferð fyrir spilafíkla.