Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslensk framleiðsla fullnægir eftirspurn að mestu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fæðuframboði á Íslandi er að stórum hluta fullnægt með innlendri framleiðslu. Staðan er mjög góð í fiski, mjólkurvörum og kjöti, en lakari í grænmeti og korni.

Góð staða víðast hvar

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Landbúnaðarháskólans fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, sem kynnt var í morgun. Þar er fjallað um fæðuöryggi þjóðarinnar. Aðeins 1% af korni til manneldis er framleitt hér á landi og 43% af grænmeti. Staðan er hins vegar allt önnur og betri í kjöti (90%), eggjum (96%) og mjólkurvörum (99%), að ekki sé talað um fisk þar sem framboð er langt umfram eftirspurn.  

Framleiðslan mjög háð innfluttu eldsneyti

Innlend matvælaframleiðsla er mjög háð erlendum aðföngum, segir í skýrslunni,  sérstaklega eldsneyti og áburði en einnig fóðri, sáðvöru og fleiru.  Kristján Þór Júlíusson er landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra segir að skýrslan dragi ágætlega fram hversu sterk og mikilvæg íslensk matvælaframleiðsla er.  „Og hvað hún stendur undir stórum hluta af fæðuframboði hér á landi. Það í raun kemur á óvart miðað við hvernig umræðan oft á tíðum er" segir Kristján.

Þarf að móta stefnu um fæðuöryggi

„Ég vil sömuleiðis segja að hún dregur ágætlega fram þau tækifæri sem blasa við til þess að gera enn betur. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna þætti sem snúa að korni og áburði. 

Það er í mínum huga mjög mikilvægt að hefja vinnu við að móta stefnu um fæðuöryggi þjóðarinnar og setja okkur markmið í þeim efnum varðandi innlenda matvælaframleiðslu og hvernig hún verður best í stakk búin til þess að takast á við skyndilegar breytingar sem snúa að aðföngum sem að íslensk matvælaframleiðsla þarf. Þetta á sérstaklega við á sviði matvöru og innflutningi á matvöru, eldsneyti, áburði og korni" segir Kristján Þór Júlíusson. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV