Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gefa umræðum um Einbúavirkjun meiri tíma

11.02.2021 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti í dag að vísa tillögum að deiliskipulagi Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti til endurskoðunar aðalskipulags sem nú stendur yfir. Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar, segir sveitarstjórn vilja gefa málinu meiri tíma og dýpka umræðuna. 

Skiptar skoðanir eru um hvort heimila eigi virkjun í Skjálfandafljóti. Fljótið á upptök sín í Vonarskarði, milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls, og fellur til sjávar í Skjálfanda. Áformað er að setja upp 9,8 megavatta rennslisvirkjun á um á 2,6 kílómetra kafla.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti í dag að vísa tillögunum, sem hafa verið í kynningarferli, til endurskoðunar aðalskipulags, sem nú stendur yfir.

Oddvitinn segir að haldnir verði kynningarfundir þegar aðstæður í faraldrinum leyfi. Þar verði framtíð fljótsins rædd heildstætt. „Ekki bara þessar tillögur, heldur að fjalla um málefni Skjálfandafljóts frá upptökum til ósa og reyna að fá fólk upp úr skotgröfunum og ræða málið opið og hreinskilnislega, en í þessu kynningarferli, sem liðið er, höfum við fengið fjölmargar athugasemdir, með og á móti,“ segir Arnór. „Við viljum bara gefa þessu meiri tíma, taka dýpri umræðu og fara betur yfir málin og vonandi komast að betri niðurstöðu fyrir vikið.“