Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Forvitnilegt safn sagna frá Sovét

Mynd: - / Ugla

Forvitnilegt safn sagna frá Sovét

11.02.2021 - 15:04

Höfundar

Sagnasafnið Sögur frá Sovétríkjunum hefur að geyma nítján sögur í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Sögurnar gefa fjölbreytta mynd af sovéskum bókmenntum allt frá byrjun 20. aldar og fram til fyrstu áranna eftir að Sovétríkin liðu undir lok.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Smásagan er merkileg bókmenntagrein sem kannski á dálítið erfitt uppdráttar nú um stundir, þótt alltaf séu að koma út nýjar smásögur og þýddar á hverju ári. Hún á sér rætur í goðsögum og ævintýrum allt frá fornöld og er að vissu leyti náttúrulegasta frásagnarformið. Þjóðsögur og ævintýri fyrri tíma komu upp úr munnlegri geymd og lengri epík krafðist ekki einungis frásagnar heldur einnig bundins máls. En epískar frásagnir fornaldar voru oft byggðar upp sem samsafn styttri frásagna, og reyndar mætti segja það um Biblíuna sjálfa að einhverju leyti. En smásagan tók á sig nýja mynd á nítjándu öld þegar hún þróaðist í listrænt og sjálfstætt form frásagnar sem lifði góðu lífi við hlið skáldsögunnar, sem einnig var komin á flug, meðal annars á tæknilegum forsendum. Prentverkið gerði hana kleifa, en það var smásögunni einnig mikil hjálp, því með tímaritavæðingu nítjándu aldar varð hún ein af vinsælustu bókmenntagreinum höfunda og lesenda. Hún náði svo hátindi sínum í tímaritum tuttugustu aldar og lifir þokkalegu lífi enn, þótt stundum sé það eins og í framhjáhlaupi.

Smásagan hefur samt fengið nokkra athygli á undanförnum árum hér á landi, nokkrir íslenskir höfundar hafa sent frá sér smásagnasöfn, bæði þekktir og nýbyrjaðir, en kannski hafa margar þær merkustu komið út í þýðingum, eins og raunar frá því á nítjándu öld, þegar heimsbókmenntahöfunda var að finna í nánast hverju tímariti. Ritröðin Smásögur heimsins hefur komið út á undanförnum árum í fimm bindum að minnsta kosti og nær hún til heimsálfanna allra utan Suðurskautslandsins, af eðlilegum ástæðum. Áslaug Agnarsdóttir, þýðandi Smásagna frá Sovétríkjunum, hefur ekki síður verið iðin við kolann síðustu áratugi, ekki aðeins við smásögur, heldur raunar ókjörin öll af verkum af ýmsum meiðum bókmenntanna. Á sviði smásögunnar hafa komið út að minnsta kosti fjögur sagnasöfn í þýðingum hennar á undanförnum tveimur áratugum, Mírgorod eftir Gogol, Fjórar sögur eftir Túrgenev, Sögur frá Rússlandi, og nú síðast Sögur frá Sovétríkjunum. Sumar sögurnar í þeim fyrrnefndu voru kannski ívið lengri, í áttina að nóvellu, en það er aukaatriði hér. Aðalatriðið er að við höfum verið að fá rjómann af rússneskri sagnagerð í rjómaþýðingum Áslaugar og mynda þær nú digran sjóð fyrir lesendur, sem bætist við önnur þýðingaafrek úr rússnesku á liðnum áratugum.

Mynd með færslu

Sögur frá Sovétríkjunum er einkar forvitnilegt safn sagna, þótt fyrsta sagan sé frá því fyrir byltingu og þær síðustu eftir hrun þessa mikla veldis. Káputextinn telur fyrstu söguna, „Tuttugu og sex og ein“ eftir Maksím Gorkí vera inngang að hinum sovésku sögum og má það alveg til sanns vegar færa. Hún segir frá verkamönnum af lægstu stigum og prinsessunni þeirra í turninum, með lokasnúningi sem er klassískur í þessari bókmenntagrein. Alls eru 19 sögur eftir fimmtán höfunda í bókinni og spannar hún tímann frá 1899 til 2005, framan af eru allar, utan ein, eftir karla, en konurnar taka við þegar á líður og þær fá líka fleiri sögur hver en karlarnir.  Þetta skiptir kannski ekki höfuðmáli, en segir vitaskuld einnig sína sögu.

Sögurnar eru ýmsum mörkum brenndar, raunsæislegar, ein er ærið súrrealísk, gróteskar, en framar öllu eru þær allar afbragðs góðir fulltrúar þessarar bókmenntagreinar og gefa okkur hér úti í Ballarhafi hugmynd um líf og lífsbaráttu fólks í Sovétríkjunum á liðinni öld, lífsbaráttu sem var kannski sjaldnast fögur, en oftast mjög mennsk á einhvern óræðan hátt; dæmi um þetta gætu verið sögur eins og „Heimkoman“ eftir Andrej Platonov, um hermanninn sem kemur aftur til fjölskyldu sinnar eftir stríðið, saga sem minnti mig á bandarískar sögur eftir höfunda á borð John Cheever þótt ólík sé hún líka; eða þá „Hefnd“ eftir Ljúdmílu Petrúshevskaju, sem er grimm í íroníu sinni en skilur eftir sig mannlegan snúning í lokin; eða „Hin hamingjusömu“ eftir Ljúdmílu Úlítskaju sem er angurvær saga um gömul hjón, sem lifað hafa hryllilega tíma og misst börnin sín öll, en láta samt lífið ekki yfirbuga sig.

Ekki má gleyma sögunni um Síberíuvist, „Smiðir“ eftir Varlam Shalamov, sem, í anda Nóbelsskáldsins sovéska, Aleksanders Solzhenítsyns, skrifar örstuttan óð, líka í átt að Hemingway, um viljann til að lifa af við hræðilegustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér. Solzhenítsyn sjálfur er með sögu í bókinni, „Mikið var það leitt“ heitir hún og er hún ekki beinlínis um fangabúðavist, heldur sýnir hann okkur fyrst einstakling, fulltrúa valdsins, sem lætur hjá líða að beita því þegar hann rekst á unga konu, sem orðið hefur einhverjir smámunir á. En snúningurinn í sögunni fer með okkur síðan til Gúlagsins með snjöllum hætti. Enda segir í lokin að hún hafi verið samin 1956 en ekki birt fyrr en 1978, þegar höfundurinn var orðinn útlægur frá Sovétríkjunum.

Þótt smásagnaformið sé stundum talið raunsætt í eðli sínu er það auðvitað ekki rétt, eins og nokkrar sögur í safninu sýna. Þær nýta sér kannski sum tæki raunsæisins á köflum, en fara síðan út í eitthvað sem er absúrd, gróteskt eða póstmódernískt nánast. „Fallöxin“ eftir Teffí er ein af þeim og minnti mig á örlítið á söguna „Welcome to the Monkey House“ eftir Kurt Vonnegut, þótt sú fyrrnefnda sé skrifuð áratugum áður, en það er eitthvað í absúrd dauðahúmornum sem er skylt, að mínu mati. Sagan „Saga“  eftir Danííl Kharms er líka innilega annarleg með óvæntum vendingum og mannlýsingum á borð við: „Mamma var hávaxin kona með mikið uppsett hár og talaði eins og hestur.“ Þetta er greinilega forvitnileg saga frá fyrstu línu, þrátt fyrir hógværan titilinn. „Konan er ekki heima“ eftir Andrej Bítov er svo undarlega raunsæisleg saga um ímyndunarafl afbrýðinnar og hefur þessi höfundur verið talinn horfa fram til póstmódernismans í rússneskum bókmenntum að sögn Áslaugar.

Ekki er rými hér til að fjalla um hverja einustu sögu í þessu ríkulega smásagnasafni, sem er mjög jafnt að gæðum, og vel mætti hafa fleiri orð um allar sögurnar. Áslaug skrifar í lokin æviágrip höfundanna og er það vel, því þau eru okkur mörgum lítt kunn, þótt sum hafi hlotið nokkra frægð víða um heim í þýðingum á önnur mál, og jafnvel í heimalandinu, þrátt fyrir að mörg þeirra hafi þurft að glíma við sovésk yfirvöld á sínum tíma. En þetta eru allt eðalsögur sem nautn er að lesa, eina og eina, eða í rykk eins og ég gerði, því það er hægt að koma aftur og aftur að þeim eins og ég gerði líka og líkaði alltaf betur og betur við hvern lestur.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Samhengislaust rugl í fullkomnu samhengi

Bókmenntir

Þrælskemmtilegur Balzac loksins á íslensku

Bókmenntir

Stjörnukerfið fullkomlega marklaust

Bókmenntagagnrýni

Afhjúpandi kímnisögur frá ólíkindaskáldi