Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekkert eftirlit með „námagreftri“ eftir rafmynt

11.02.2021 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands fylgist hvorki með né hefur upplýsingar um rafmynt, eða sýndarfé, sem „grafin er upp“ í námum í íslenskum orkuverum. Það varar þó við áhættu af notkun hennar.

Rafmynt er að sögn Fjármálaeftirlitsins hvergi viðurkenndur gjaldmiðill og fellur því ekki undir ákvæði laga um greiðsluþjónustu eða útgáfu og meðferð rafeyris. 

Þetta kemur fram í Fréttablaði dagsins en álitið er að um átta prósent af stærstu rafmyntinni bitcoin verði til hér á landi. Markaðir með sýndarfé þurfa ekki starfsleyfi og falla ekki undir lög um verðbréfaviðskipti. Ekki lúta þeir heldur eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Bandarísk yfirvöld telja rafmynt hornstein í fjármögnun hryðjuverka, fíkniefnaviðskipta og dreifingar barnakláms og hafa því reynt að fylgjast með notkun hennar.

Azym Abdullah, sem hýsti vefsíðu hryðjuverkasamtakanna ISIS á Íslandi árið 2014, notaði bitcoin við sín viðskipti að því er fram kemur í skýrslu bandaríska fjármálaeftirlitsins.

Fréttablaðið greinir frá því að 90% af þeirri orku sem bundin er í gagnaverum á Íslandi fari í námugröft eftir rafmynt, en um 5% orkuframleiðslu landsins fer til gagnavera.