Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Býst við tilslökunum eftir bólusetningu eldri borgara

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að þegar búið verði að bólusetja eldr borgara verði ákveðin tímamót í sóttvarnarráðstöfunum innanlands. Hún væntir þess að afhending bóluefna gangi hraðar á öðrum fjórðungi ársins en þeim fyrsta. Sóttvarnalæknir segist ekki vita hvort búið verði að bólusetja meirihluta þjóðarinnar um mitt árið.  

Annar fjórðungur verður betri en sá fyrsti segir Katrín

Stjórnvöld hafa miðað við að búið verði að bólusetja meirihluta þjóðarinnar um mitt ár. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í sjónvarpsfréttum í gær að stjórnvöld þyrftu að svara því hvort raunhæft sé að þær áætlanir standist. 

Björn Leví Gunnarsson, Pírötum, spurði forsætisráðherra á Alþingi í dag um afhendingaráætlun bóluefna og sagði enga tímalínu um afhendingu á bóluefni.is og engan fyrirsjáanleika nema óljósar tölur:

„Heilbrigðisráðherra segir að það verði hægt að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrri helmingi árs. Hvað þýðir þorri þjóðarinnar og hvaða áhrif hefur það á sóttvarnaaðgerðir?“ sagði Björn Leví. 

„Það er raunhæft að reikna með því að afhengin bóluefna muni aukast verulega á öðrum ársfjórðungi frá fyrsta ársfjórðungi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars í svari sínu. 

„Og af því háttvirtur þingmaður vill setja þetta í samhengi við sóttvarnaráðstafanir innanlands, herra forseti, þá geta orðið ákveðin tímamót þegar við er búin að ljúka bólusetningu þess sem við köllum viðkvæma hópa, þ.e.a.s. eldri borgara að þá munum við sjá marktæk áhrif tel ég á sóttvarnaráðstafanir innanlands þegar sá hópur hefur fengið sína bólusetningu.“

Langt komið með bólusetningu 90+

Ef litið er á eldri borgara sem forsætisráðherra nefnir þá er búið að bólusetja meira en sjö af hverjum tíu sem eru 90 ára og eldri. Bæði er átt við bæði þá sem eru búnir að fá fyrri sprautu og eru fullbólusettir. Búið er að bólusetja 3 af hverjum tíu á aldrinum 80 til 89 ára. Aðeins er búið að bólusetja rúm 6 prósent á aldrinum 70 til 79 ára, og rúm þrjú prósent 60 til 69 ára. 

Veit ekki hvort næst um mitt ár

Sóttvarnalæknir segist ekki geta svarað því hvort búið verði að bólusetja meirihluta þjóðarinnar um mitt ár: 

„Það ræðst af því hvernig dreifingaráætlunin verður fyrri annan og þriðja ársfjórðung en eins og staðan er núna þá veit ég það ekki,“ segir Þórólfur Guðnason.