Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brýn þörf á viðhaldi 150 friðlýstra kirkna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðhaldsþörf um 150 friðlýstra kirkna í eigu og umsjón þjóðkirkjusöfnuða nemur um 217 milljónum króna, eða 1,75% af brunabótamati þeirra. Þeirra á meðal er Húsavíkurkirkja en mikill fúi hefur komið fram í henni. 

Fram kemur máli Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands í Morgunblaðinu í dag að viðhaldsþörfin hafi verið reiknuð út í mars 2019. Sóknargjöld til safnaðanna nema á sama tíma tæpum 193 milljónum króna. Þeim er ætlað að standa undir margvíslegum rekstri sóknanna. 

Haft er eftir biskupi að vandinn væri útbreiddur og væri tengdur niðurskurði á sóknargjöldum, um tugi prósenta. Þegar um friðlýst hús væri að ræða bæri að fara eftir ákveðnum reglum um viðgerðir, sem reynst gæti kostnaðarsamt. 

Á síðasta ári sóttu sóknir um 900 milljóna styrki til viðhalds kirkna í jöfnunarsjóð sókna en að sögn Agnesar hafði sjóðurinn um þriðjung þeirrar fjárhæðar til úthlutunar. 

Agnes segir laun starfsfólks sóknanna greidd með sóknargjöldum, laun djákna, organista og fólks sem sinnir barna- og æskulýðsstarfi. Hún segir jafnframt fjölda sjálfboðaliða starfa launalaust við söfnuði landsins. 

Hún vitnar í greinargerð sem fylgdi ályktum héraðsfundar Reykjavíkurprófastdæmis eystra árið 2019 sem skoraði á Alþingi og ríkisstjórn að leiðrétta sóknargjöld. Þau hafi verið skert mjög árið 2009. 

Í greinargerðinni segir að söfnuðir gætu ekki sinnt brýnasta viðhaldi eigna, væru enn að segja upp starfsfólki og draga úr starfsemi. Sóknargjöldin hefðu hækkað um 6,3% milli 2008 og 2019 en vísitala neysluverðs um 63,6%.