Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja þegar hefja lagningu Sundabrautar að norðanverðu

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Í yfirlýsingu sveitarfélaga á Vesturlandi í gær kemur fram kemur vilji þeirra til að flýta undirbúningsvinnu við Sundabraut. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi er bjartsýnn á að verkinu muni vinda hratt áfram.

Sævar var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og rifjaði upp að hann hefði verið fjögurra ára þegar hugmyndin um Sundabraut var fyrst sett fram. Hún hafi verið um 35 ár á skipulagi eftir það.  

Sundabraut sé mikið hagsmunamál fyrir íbúa Vesturlands sem sveitarfélögin hafi barist fyrir þessu um dágóðan tíma. Í yfirlýsingu þeirra fagna þau nýrri skýrslu um lagningu brautarinnar þar sem skýrðir eru helstu valkostir um legu hennar og þverun Kleppsvíkur.

„Sveitarfélögin á Vesturlandi hvetja því samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg að hefja nú þegar undirbúningsvinnu við lagningu Sundabrautar þannig að verkefninu verði lokið eigi síðar en árið 2030.“

Aksturstími mun styttast

Sævar segir að aksturtími milli Akraness og Reykjavíkur muni styttast niður í tuttugu mínútur með tilkomu Sundabrautar. Hann álítur að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra hafi haldið vel á málum og að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vinni málið af heilindum.

Sævar Freyr segir áríðandi fyrir borgina að samgöngur út úr henni  séu greiðar og að tenging með Sundabraut sé áríðandi fyrir allt svæðið. „Það mun gagnast öllum, ekki aðeins Vestlendingum, einnig fólki frá Reykjanesi og Suðurlandi að samgöngur inn í borgina séu greiðar og góðar.“

Sævar segist hafa trú á að þetta sé verkefni sem leyst verði í sameiningu.  Hann telur jafnframt að fleiri muni vilja búa á Akranesi eða í Borgarnesi með tilkomu Sundabrautar. Nú þegar séu um þúsund manns sem sækja vinnu og skóla þaðan til Reykjavíkur.

„Ég vona að því fari fjölgandi enda hefur Sundabrautin verulega þýðingu fyrir það fólk sem getur ferðast fljótar og öruggar til vinnu eða náms.“ Mikil uppbygging sé þegar hafin á Akranesi við íbúðabyggingar og innviði.

„Það er von okkar að þessi lausn höggvi á þann hnút sem verið hefur varðandi val á samgöngumannvirki til þverunar Kleppsvíkur,“ segir í yfirlýsingu sveitarfélaganna á Vesturlandi. 

Þverun Kollafjarðar verði ekki látin bíða 

„Hins vegar er afar mikilvægt að fara á sama tíma í allt verkefnið, þannig að framkvæmdir við þverun Kollafjarðar og vegalagningu á Álfsnesi, Gufunesi og Geldinganesi verði ekki látnar bíða efir því að þverun Kleppsvíkur verði lokið.

Jafnvel mætti hugsa sér til að flýta framkvæmdum eins og kostur er að hefja lagningu Sundabrautar að norðanverðu.“

Sævar segir raunhæft að hefja þegar í stað framkvæmdir við þá leið, frá Kjalarnesi yfir í Gufunes.  Sundabraut muni bæta öryggi fyrir alla, stuðla að eflingu atvinnulífs og auka framleiðni enda fari nú dágóður tíma í að ferðast milli staða. 

„Við leggjum áherslu á að framkvæmdir hefjist frá Kjalarnesi yfir í Gufunes. það væri raunhæf leið til að hefja framkvæmdir,“ segir Sævar Freyr Þráinsson sem verður fimmtugur á árinu og býst við að verða búinn að keyra um Sundabraut þegar hann verður sextugur.