
Þúsundir starfsmanna Heineken missa vinnuna
Heineken er næst stærsta fyrirtæki í heimi á sínu sviði. Það á einnig Tiger, Sol og Desperados vörumerkin. Dolf van den Brink, forstjóri fyrirtækisins síðan í apríl, sagði í yfirlýsingu þegar hann kynnti afkomu síðasta árs að dæmalaus umskipti og röskun hefðu einkennt reksturinn í fyrra. Fyrirtækið var rekið með 204 milljóna evra tapi. Til samanburðar var hagnaðurinn 2,1 milljarður evra árið á undan.
Sala á bjór á börum og krám í Evrópu dróst saman um fjörutíu af hundraði. Í Mexíkó og víðar varð verulegur samdráttur. Af þessum sökum þarf að segja upp hátt í tíunda hverjum starfsmanni fyrirtækisins. Hjá því vinna um það bil 85 þúsund manns víða um heim.
Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að COVID-19 faraldurinn og viðbrögð stjórnvalda til að halda aftur af honum eigi eftir að hafa áhrif á rekstur Heineken fram eftir árinu. Hlutabréf í Heineken höfðu fallið um 1,62 prósent í kauphöllinni í Amsterdam klukkan hálf eitt í dag vegna samdráttarins í rekstri.