Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sjá sóknarfæri í sameiningu sveitarfélaganna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson
Nýsköpun, fræðsla, umhverfi og stjórnsýsla eru meðal umræðuefna á íbúafundum þessa dagana í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Þar á að láta reyna á hvort samvinna sveitarfélaganna verði sterkari við sameiningu.

Landfræðilega séð væri auðvelt að ímynda sér Þingeyjarsveit og Skútstaðahrepp sem eitt og sama sveitarfélagið. En svo er þó ekki, enn sem komið er allavega.

Möguleikar til sóknar með því að leggja saman krafta

Það er mikið samstarf milli sveitarfélaganna á sviði stjórnsýslu en einnig starfa íbúarnir saman á ýmsum sviðum. „Þess vegna ákváðum við að fara í þetta," segir Arnór Benónýsson, varaformaður samstarfsnefndar um sameiningu. „Ekki vegna þess að það væri einhver nauð yfirvofandi, alls ekki. Sveitarfélögin stóðu vel, en við töldum okkur eygja möguleika til sóknar með því að leggja saman kraftana."

Fjórir íbúafundir á rúmri viku

Sameinað sveitarfélag yrði landfræðilega stórt, ríflega 12.000 ferkílómetrar, en ekki ýkja fjölmennt, með ríflega 1.300 íbúa. Þorpin á Laugum og í Reykjahlíð eru stærst, en einnig eru nokkrir minni kjarnar. Nú standa yfir íbúafundir þar sem kynnt er vinna starfshópa allt síðasta ár. Eftir fundina, umræður og tillögur frá íbúunum, verður unnin heildartillaga að nýju sveitarfélagi sem lögð verður fyrir sveitarstjórnirnar. „Og síðan greiða íbúarnir atkvæði um þessa tillögu 5. júní núna í vor. Þannig að núna erum við í kynningarferli," segir Arnór.

Segir eðlilegt að fólk efist um breytingar

Þótt margir séu fylgjandi sameiningu hefur komið fram andstaða á íbúafundunum. Arnór segir eðlilegt að fólk efist um breytingar. „Fólk vill auðvitað halda í sitt. Jaðarbyggðir óttast að verða útundan, svona hefðbundið. Og menn hugsa um skólana sína, menn hugsa um hvar stjórnsýslan verður og svo þorrablótin, enginn vill missa sín þorrablót."

„Og svo spyrjum við að leikslokum"

En verði sameinað þurfi að breyta stjórnsýslunni, fækka fulltrúum í sveitarstjórn og sveitarstjórum út tveimur í einn. Ekki sé gert ráð fyrir breytingum í skólamálum, en nú eru starfræktir þrír grunnskólar og einn framhaldsskóli. „Við lögðum af stað af því að við eygðum tækifæri og við vinnum út frá því en hlustum auðvitað á íbúana. Og svo spyrjum við að leikslokum," segir Arnór.