Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pólitískt skipuð barnavernd heyrir brátt sögunni til

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stefnt er að því að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Í stað þeirra verður starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar á vegum sveitarfélaga.

Þetta er meðal breytinga á barnaverndarlögum í nýju frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnaverndarráðherra sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Ásmundur Einar segir sitt mat að pólítískar nefndir eigi ekki að taka ákvarðanir í barnaverndarmálum. Hann kveður barnið eiga að vera hjartað í kerfinu, eins og hann orðar það.

Á vef stjórnarráðsins segir að með frumvarpinu verði áhersla lögð á fagþekkingu innan barnaverndarþjónustunnar. Gert er ráð fyrir því að skipunartími umdæmisráða verði fimm ár í senn og falli því ekki að fjögurra ára kjörtímabili sveitarstjórna.

Í þeim sitja lögfræðingur, félagsráðgjafi og sálfræðingur. „Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á almennum ákvörðunum, stuðningi og ráðstöfunum í barnavernd en aðkomu umdæmisráðs þarf í tilteknum ákvörðunum.“

Barnaverndarumdæmi skulu almennt ekki vera fámennari en 6.000 íbúar en geti sveitarfélög sýnt fram á lágmarks fagþekkingu á barnavernd megi veita undanþágu frá því.

Undanfarin ár hefur verið uppi nokkur gagnrýni á barnaverndarkerfið á Íslandi og árið 2018 skilaði Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tillögu að viðmiðum skýrara verklag. Það var gert að beiðni félags- og jafnfréttismálaráðherra. 

Ásmundur Einar hvetur sem flesta að koma að tilögum og ábendingum í samráðsgátt stjórnvalda, enda sé verið að gera miklar breytingar í kerfinu.