Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Opna skíðasvæðið þremur vikum eftir snjóflóðin

10.02.2021 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Þrátt fyrir tug milljóna tjón á skíðasvæðinu á Siglufirði eftir snjóflóð er stefnt að því að opna svæðið aftur á morgun. Til stóð að opna svæðið í dag að því varð ekki vegna veðurs.

Lyfturnar sluppu

Stórt snjóflóð féll á skíðasvæðið þann 20. janúar með þeim afleiðingum að skíðaskáli sem reistur var árið 2005 og fjórir gámar sem hýstu skíðaleigu eyðilögðust algerlega. Þá skemmdist annar snjótroðarinn sem svæðið hefur til umráða. Lyfturnar sjálfar virðast hafa sloppið, því nú þremur vikum eftir flóðið er búið að laga til í fjallinu og ekkert því til fyrirstöðu að opna. 

Sjá einnig: „Ég hefði getað verið kominn inn í skálann“ 

„Staðan í Skarðsdal er sú að búið er að tengja allt og lyftan var prufu keyrð í gær og allt klárt og stefnum á að opna á morgun,“  segir í tilkynningu á heimasíðu skíðasvæðisins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Skíðaleigan fór illa út úr flóðinu