Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norðurmýrin í Reykjavík var eitt sinn votlendi

10.02.2021 - 13:59
Mynd:  / 
Stefán Gíslason fjallaði um alþjóðlegan dag votlendis í umhverfispistli í Samfélaginu á Rás 1. Votlendi gegna stóru hlutverki í vistkerfi jarðar og stuðlar að betri líðan íbúa hennar. Votlendi geta verið svo margt, ekki bara fuglasvæði, heldur gegna þau líka mikilvægu hlutverki fyrir vatna- og kolefnisbúskap jarðar. Stefán bendir á að Norðurmýrin í Reykjavík, er framræst mýri - og það má sjá á húsunum sem þar voru byggð hvernig framræst votlendi minnkar þegar úr því hverfur kolefnið.

Vernd og skynsamleg nýting

Á hverju ári er Alþjóðlegur dagur votlendis haldinn hátíðlegur 2. febrúar, sem þýðir að þessi merkisdagur var einmitt í fyrradag. Tilgangurinn með þessum degi er að minna fólk um heim allan á mikilvægi votlendis fyrir lífið á jörðinni og þá ekki síst fyrir líf okkar sjálfra. Votlendisdagurinn er haldinn ár hvert á stofndegi Ramsarsamningsins um votlendi, sem gerður var í Ramsar í Íran, á strönd Kaspíahafsins, 2. febrúar 1971.

Um leið og búið er að nefna stofndag Ramsarsamningsins átta glöggir hlustendur sig örugglega á því að í fyrradag voru einmitt liðin nákvæmlega 50 ár frá stofndeginum í Ramsar. Votlendisdagurinn þetta árið var því ögn stærri en Votlendisdagar annarra ára. Afmæli er jú alltaf afmæli – og hálfrar aldar afmæli flokkast sem stórafmæli. Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum 2. desember 1977 og sú aðild öðlaðist formlega gildi 2. apríl árið eftir.

Vegna aðildar sinnar ber Íslandi, eins og öðrum aðildarríkjum, að tilnefna a.m.k. eitt svæði á skrá samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Samkvæmt samningnum eiga ríkin líka að undirbúa og framkvæma skipulag þannig að stuðlað sé að vernd votlendissvæða á skránni, svo og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða innan lögsögu ríkjanna. Þá eiga ríkin líka að tilkynna skrifstofu samningsins ef vistfræðileg sérkenni svæða sem ríkin hafa tilnefnt á skrána hafa breyst, eru að breytast eða eru líkleg til að breytast vegna verklegra framkvæmda, mengunar, eða annarrar röskunar af mannavöldum.

Auk þess ber ríkjunum að stuðla að verndun votlendis og votlendisfugla með því að stofna friðlönd á votlendissvæðum, hvort sem þau eru á skránni eða ekki, sjá um að gæsla þeirra sé fullnægjandi, stuðla að rannsóknum og miðlun upplýsinga og rita um votlendi og stuðla að þjálfun starfsliðs á sviði rannsókna, nýtingar og gæslu votlendissvæða, svo eitthvað sé nefnt.

Íslensk friðlýst votlendi

Eins og staðan er í dag hefur Ísland fengið sex svæði skráð sem Ramsarsvæði. Þetta eru Andakíll við Hvanneyri, Grunnafjörður í Hvalfjarðarsveit, Guðlaugstungur við Hofsjökul, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver. Hvert svæði hefur sína sérstöðu, sem m.a. endurspeglast í friðlýsingarskilmálum, en öll eiga þau það sameiginlegt að vera mikilvæg búsvæði og viðkomustaðir fugla. Eins og hér hefur komið fram var tilgangur Ramsarsamningsins öðru fremur að vernda búsvæði fugla og stuðla þannig að viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.

En votlendi eru náttúrulega ekki bara fuglasvæði, heldur gegna þau líka afar mikilvægu hlutverki bæði í vatnsbúskap einstakra svæða og í kolefnisbúskap jarðarinnar. Mikilvægi votlendis fyrir vatnsbúskapinn vill stundum gleymast, en þetta er samt eitthvað sem laxveiðimenn og aðrir þeir sem fylgjast með rennsli í ám þekkja býsna vel. Í miklum rigningum taka votlendissvæði nefnilega til sín vatn en miðla því svo aftur frá sér í þurrkatíð. Þannig viðhalda þessi svæði jöfnu rennsli í ám og lækjum sem er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa – og auðvitað líka þá sem nærast á þessum lífverum eða veiða þær sér til gagns og gamans.

Sé hins vegar búið að grafa skurði í votlendið getur það ekki lengur sinnt þessu miðlunarhlutverki jafnvel og áður – og rigningarvatnið skilar sér þá beint út í árnar með tilheyrandi rennslissveiflum. Mikilvægi votlendis fyrir kolefnisbúskapinn hefur líklega verið meira í umræðunni síðustu misseri, en mikilvægið fyrir vatnsbúskapinn. Votlendið geymir nefnilega verulegt magn kolefnis sem hefur orðið til á síðustu öldum og árþúsundum við niðurbrot jurtaleifa. Af vistgerðakortum Náttúrufræðistofnunar má þannig ráða að kolefnisinnihald í mýrajarðvegi sé oftast á bilinu 5-20%. Þetta þarf svo sem ekkert að koma á óvart þegar haft er í huga að Íslendingar, eins og margar aðrar þjóðir, notuðu til skamms tíma mó til eldiviðar í umtalsverðum mæli. Kol eru vissulega betri eldiviður, vegna þess að kolefnisinnihaldið í þeim er miklu hærra en í mó, en í raun má segja að þetta sé sama efnið, þ.e.a.s. niðurbrotnar jurtaleifar. Kolin myndast bara á meira dýpi og á miklu lengri tíma. Út frá því sem hér hefur verið sagt er sem sagt ekki algjör fjarstæða að líta á mýri sem þykkan stafla af frekar lélegum kolum. Það sem gerist þegar kol brenna er að súrefni gengur í samband við kolefnið, kolefnið sem sagt oxast, við það losnar orka og til verður lofttegundin koldíoxíð sem streymir út í andrúmsloftið.

Norðurmýrin framræst

Það sama gerist þegar mýri er framræst. Þá kemst súrefni að kolefninu í mýrinni, það oxast og yfirgefur sitt fasta form og flýgur á braut sem koldíoxíð. Þetta gerist hægt, en þó nógu hratt til þess að að meðaltali er áætlað að íslenskt votlendi losi frá sér um 20 tonn að koldíoxíði á hvern hektara á ári eftir að það hefur verið framræst og súrefni þannig hleypt niður í svörðinn, sem það komst ekki í á meðan hann var blautur. Flestir vita að það eyðist sem af er tekið. Rétt eins og kolabingur eyðist þegar honum er brennt, þá eyðist líka mýrarjarðvegur þegar kolefnið í honum oxast. Sérfræðingar hafa áætlað að eftir að mýri hefur verið framræst lækki yfirborð hennar um u.þ.b. hálfan sentimetra á ári vegna þessa brotthvarfs kolefnisins.

Þetta ættu m.a. íbúar í Norðurmýrinni í Reykjavík að kannast við. Norðurmýrin var einu sinni votlendi eins og nafnið bendir til og þar hefur yfirborð landsins því lækkað jafnt og þétt síðustu áratugi eftir því sem meira kolefni hefur yfirgefið jarðveginn í formi koldíoxíðs. Það er sem sagt eiginlega ekki rétt að tala um að Norðurmýrin hafi sigið sem þessu nemur. Hún hefur einfaldlega verið að eyðast – og heldur því líklega áfram lengi enn. Ef vel heppnaður framræsluskurður er grafinn til botns í tveggja metra, eða með öðrum orðum 200 sentimetra, djúpa mýri, þá ætti samkvæmt því sem hér hefur komið fram að taka um 400 ár að eyða mýrinni allri, miðað við hálfs sentimetra lækkun á ári. Sjálfsagt verður skurðurinn löngu hruninn saman og þar með hættur að þjóna sínu upphaflega hlutverki eftir 400 ár, en fræðilega séð gæti þetta samt verið svona.

Samkvæmt skýrslu Samráðshóps um endurheimt votlendis sem kom út árið 2016 hafa um 420.000 hektarar af votlendi verið ræstir fram hérlendis, eða um 4% af flatarmáli landsins, og innan við 14% af öllu þessu landi eru nýtt til jarðræktar. Nú er talið að losun frá framræstu votlendi sé um tveir þriðju hlutar af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Með allt þetta í huga er ágætt að nota Alþjóðadag votlendis og dagana þar á eftir, þar með talinn daginn í dag, til að velta því fyrir sér hvort við séum á réttri braut í þessum málum.

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn