
Meðmæli WHO með AstraZeneca breyta engu fyrir Ísland
15 manna sérfræðinganefnd segir í yfirlýsingu sinni að óhætt sé að nota bóluefnið fyrir þennan aldurshóp. „Að teknu tilliti til þeirra gagna sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skoðað er það niðurstaða sérfræðinganefndarinnar að óhætt sé að nota bóluefnið fyrir fólk á þessum aldri..“
Þá segir stofnunin einnig að hægt sé að nota bóluefnið í þeim löndum þar sem ný afbrigði veirunnar hafa greinst. Þetta er þvert á niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem benti til þess að bóluefnið veitti minni vörn gegn hinu svokallaða „suður-afríska afbrigði“.
Ísland er í hópi þeirra landa sem ætla að takmarka notkun á bóluefni AstraZeneca. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að þessi meðmæli WHO breyti engu um þá ákvörðun. Von er 13.800 skömmtum af bóluefni AstraZeneca í þessum mánuði og verður meðal annars bólusett með bóluefninu í Laugardalshöll.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út markaðsleyfi fyrir bóluefni AstraZeneca í lok janúar og Lyfjastofnun Íslands gaf út sitt markaðsleyfi í framhaldinu en þar voru engar takmarkanir.
Miklar vonir hafa verið bundnar við bóluefnið þar sem það er ódýrt í framleiðslu og einfalt að geyma það auk þess sem þrír mánuðir geta liðið á milli fyrstu og annarrar sprautu. Harðar deilur milli AstraZeneca og Evrópusambandsins hafa þó sett strik í reikninginn eftir að lyfjafyrirtækið tilkynnti að það gæti ekki staðið við afhendingaráætlun sína á fyrsta ársfjórðungi.