Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjúkrunarheimili með yfirdrátt og einhver stefna í þrot

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarheimili hafa þurft að fá yfirdrátt og sum stefna í þrot vegna þess að greiðslur frá Sjúkratryggingum vegna aukakostnaðar í tengslum við faraldurinn hafa ekki borist. Þetta segir formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Hann segir að heimilin eigi rúman milljarð inni. Forstjóri Sjúkratrygginga segir að gögn vanti svo hægt sé að greiða peningana út.

Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 áttu hjúkrunarheimili í landinu að fá 538 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna COVID-19. Launakostnaður hækkaði vegna bakvarðasveita sem kallaðar voru út, kostnaður vegna kaupa á nauðsynlegum búnaði hefur verið töluverður auk þess sem ræsting hefur verið aukin í faraldrinum. Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að fjölmörg heimili hafi þar að auki orðið af miklum tekjum vegna þess að þau hafi orðið að útbúa sérstök einangrunarrými og því orðið að fækka heimilisfólki með tilheyrandi tekjutapi. Þetta fé segir Gísli Páll að Sjúkratryggingar hafi ekki greitt út, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

„Mjög óljós svör“

„Þetta eru annars vegar peningar sem voru samþykktir í fjáraukalögum í lok síðasta árs, upp á 500 og eitthvað milljónir, vegna kostnaðarauka vegna COVID. Þannig að peningarnir eru klárir í það, það á bara eftir að dreifa þeim, skipta þeim og borga þá út til heimilanna,“ segir Gísli Páll. 

„Hins vegar eru þetta peningar sem við teljum okkur eiga inni hjá Sjúkratryggingum sem eru vegna tapaðra tekna vegna þess að COVID olli því hjá mörgum heimilum að það þurfti að fækka heimilismönnum og útbúa sérstakar einangrunareiningar. Þannig að fólk var ekki tekið inn í þær einingar og þá töpuðust tekjur. Sem betur fer þurfum við ekki að nota þær því það komu nánast ekki upp smit hjá okkur á síðasta ári. En tekjurnar töpuðust og þessir peningar voru náttúrulega líka ráðgerðir í fjárlögum þannig að þeir eru líka til. En við höfum fengið mjög óljós svör um hvort og þá hvenær þetta verður greitt til okkar.“

Hversu há upphæð er þetta þá samanlagt sem þið lítið svo á að þið eigið inni hjá Sjúkratryggingum?

„Þetta er að mínu mati rúmur milljarður. Það er ekki búið að taka saman formlega tapaðar tekjur en þær upplýsingar liggja allar fyrir hjá Sjúkratryggingum. Væntanlega þarf bara að ýta á tvo takka og þá prentast það út úr tölvu. Á Grundar-heimilunum sem ég stýri, þá eru þetta í kringum 90 milljónir.“

„Afar óánægð“

Gísli Páll segir að heimilin hafi ekki getað brugðist eins vel við seinni bylgjunum og þeim fyrri, því þau hafi neyðst til að spara svo mikið.

„Og þetta bitnar á heimilisfólkinu og starfsfólkinu okkar og við erum bara afar óánægð með þessa framkomu Sjúkratrygginga.“

Hvað með reksturinn sjálfan, hafa menn þurft að ráðast í lántökur til þess að brúa bilið?

„Já það eru einhver heimili rekin með yfirdrætti. Þetta er ekki heldur til þess að hjálpa sveitarfélaga-heimilunum sem er verið að skila umvörpum til ríkisins þessa dagana, að fá ekki þessa peninga. Þannig að það hefði mátt milda ástandið og laga það með því að koma þessum peningum út fyrr. Og ég skil ekki þennan seinagang.“

Þannig að einhver heimili hafa þurft, vegna þessa ástands, að taka yfirdrátt?

„Já. Ég hef staðfestar fréttir af því.“

Ef þessir peningar berast ekki á næstunni, hvaða afleiðingar gæti það haft?

„Það fara annað hvort einhverjir fleiri alveg í þrot eða gefast upp og skila sér til ríkisins. Og það er kannski það sem ríkið vill, að fá þetta til sín, ég veit það ekki. En það er svolítið sérstakt að hjúkrunarheimili landsins séu einu lögaðilarnir á Íslandi sem hafa ekki fengið neinn pening eða neinn styrk eða neitt frá ríkinu, ekki eina einustu krónu, á meðan veitingastaðir og matsölustaðir hafa fengið styrki. Og að sjálfsögðu Landspítalinn sem hefur verið að fá talsverða fjárhagsaðstoð. Ég er ekki að sjá á eftir því en við viljum kannski fá einhvern part af kökunni.“

Óttast drátt

Þannig að einhver heimili stefna hreinlega í þrot út af þessu?

„Já. Það vantar milljarð inn í rekstur þessara heimila. Og það er ekki eins og það hafi verið afgangur fyrir. “

Hvaða svör hafið þið fengið frá Sjúkratryggingum? 

„Það er verið að vinna í þessu, það er verið að reikna út og skoða og það á eftir að taka þessa saman og það á eftir að skoða þetta innanhúss hjá þeim og síðan á eftir að skoða þetta í heilbrigðisráðuneytinu. Þannig að við fáum afar óljós svör og ég sé ekki fram á að þetta verði skýrt á næstu dögum eða jafnvel vikum. Ég óttast að þetta eigi eftir að dragast úr hófi.“

Og það átti að vera fundur um þetta mál í gær?

„Já hann átti að vera í gær. En honum var óvænt frestað á síðustu stundu og hann verður 18. febrúar, á fimmtudaginn í næstu viku. Þannig að ég veit ekki hvort þetta næst í þessum mánuði.“

Vilja tryggja samræmi

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir að gögn vanti frá ákveðnum heimilum svo hægt sé að greiða peningana út.

„Það þurfti að gefa heimilunum aukafrest til þess að skila gögnunum. Það átti að skila þeim 20. desember en 21. janúar, þá voru mörg heimili, fimmtungur heimilanna, enn ekki búin að skila. Og þá fengu þau frest til 28. janúar. Og þetta var ákveðið í samráði við formann samtaka heimilanna.“

En væri ekki hægt að greiða þeim heimilum sem eru búin að skila gögnum?

„Okkur þykir mikilvægt að tryggja samræmi í því sem greitt er og heimilin eru að skila býsna mismunandi gögnum og að óska eftir greiðslum fyrir mismunandi hluti. Þannig að við teljum ekki rétt að greiða fyrr en gögn hafa borist frá öllum.“

Hafið þið skilning á því að þessi heimili hafi áhyggjur af fjárhagsstöðunni?

„Auðvitað skiljum við það. Og þess vegna er svo mikilvægt að það þurfi ekki að bíða lengi eftir gögnum eins og því miður hefur verið hér,“ segir María.