Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hinsegin Vesturland lítur dagsins ljós

Hinsegin Vesturland verður stofnað á morgun. Stofnendurnir segja mikilvægt fyrir hinsegin fólk að hafa vettvang til að koma saman, ekki síst á landsbyggðinni.

Þegar eru til hinsegin samtök á Norðurlandi og Austurlandi. Guðrúnu Steinunni Guðbrandsdóttur fannst slíkt vanta á Vesturlandi og ákvað að láta af því verða.

„Ég fann alveg fyrir því þegar ég flutti hingað, búin að búa í Reykjavík í mörg ár, ég fann alveg að fólk var ekki eins opið hér eins og í Reykjavík. Svo sér maður krakka, ég er að vinna í grunnskólanum, þau eru að ströggla, við tilfinningarnar sínar og allt. Það er svo gott að það sé einhver fyrirmynd og einhver sýnileiki svo þau þori að vera þau sjálf,“ segir hún.

Félagið á að skapa vettvang þar sem hinsegin samfélagið á Vesturlandi getur myndað tengsl. Ungt, samkynhneigt fólk er tvöfalt líklegra til að vilja flytja búferlum en aðrir.

„Ég fann það sjálfur þegar maður er búinn að flytja frá bæjarfélaginu sínu af því að manni fannst maður einn. Þótt það hafi kannski ekki verið eina ástæðan en auðvitað er það hluti af því,“ segir Ingvar Breiðfjörð Skúlason

Hvernig er tilfinningin að vera að láta þetta gerast?

„Mjög góð en smá stressandi. Þetta er aðeins meira en maður hugsaði í byrjun sem bara frábært að láta þetta gerast og fólk er að sýna rosa mikinn áhuga.“

Eitt af fyrstu verkefnum Hinsegin Vesturlands verður að halda gleðigöngu í Borgarnesi í sumar. Hún átti upphaflega að fara fram í fyrra en frestaðist vegna faraldursins. 

„Ég þarf bara að skipuleggja vagninn minn, það er aðalmálið. Fyrsta eftir stofnfundinn þá þarf ég að ákveða þema, hver ætlar að keyra trukkinn minn og svona. Ég þarf að mæta með stæl, ég held það,“ segir Ingvar.