Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki víst að verðbólga hjaðni að ráði fyrr en í apríl

Mynd með færslu
 Mynd: www.flickr.com/kjelljoran
Verðbólga verður áfram yfir þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans að því er fram kemur hjá Greiningu Íslandsbanka. Þar er því spáð að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í febrúar og því hjaðni tólf mánaða verðbólga niður í 4,1% úr 4,3%.

Lækkun verðbólgu þrátt fyrir hækkun vísitölu er til komin með því að mikil hækkun varð milli janúar og febrúar 2020. Nú reiknast sú hækkun ekki inn í samtalstölu ársins og því lækkar verðbólgutakturinn að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka.

Ekki er búist við að verðbólga fari undir 4% þolmörk Seðlabankans fyrr en í apríl. Seðlabanki sendi forsætisráðherra nýverið greinargerð vegna þess að verðbólgan í janúar fór yfir þau mörk. 

Jón Bjarki segir í samtali vð fréttastofu að áhrifin af lækkun krónunnar undanfarna mánuði séu að mestu komin fram og muni því ekki lita verðlagsþróun næstu mánaða. Innflutt vara hafi hækkað meira í verði en innlend.

Hann segir að Seðlabankinn beitti vaxtahækkunum væri mikill gangur í efnahagslífinu en hann muni koma í veg fyrir frekari veikingu krónunnar með viðskiptum á gjaldeyrismarkaði.

„Verðbólga er mælikvarðinn á hvað kostar að vera til, kaupa í matinn, gera sér glaðan dag, reka heimili og bíl svo dæmi séu nefnd,“ segir Jón Bjarki sem segir góðu fréttirnar fyrir marga vera hve laun hafi hækkað hratt á síðastliðnu ári.

Það merkir að þau sem ekki hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi eða misst vinnuna hafi úr meira að spila en fyrir ári. „Hækkunartakturinn er tímabundinn,“ segir Jón, „ástæðurnar fyrir verðbólgunni eru í fortíð og hafa ekki áhrif til lengri tíma.“