Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Demókratar sýna áður óbirt myndbönd af innrásinni

10.02.2021 - 22:10
Mynd: EPA / EPA
Demókratar á Bandaríkjaþingi eru nú að sýna myndbönd af innrás múgs í þinghúsið 6. janúar. Myndböndin eru hluti af málflutningi þeirra í ákæruferli gegn Donald Trump, fyrrum forseta, sem gefið er að sök að hafa hvatt til innrásinnar, þar sem fimm manns fórust.

Málflutningurinn stendur enn og eru myndböndin meðal annars úr öryggismyndavélum þinghússins og er það þingkonan Stacey Plaskett sem segir frá atburðarásinni skömmu eftir hádegi 6. janúar þegar æstur múgur réðist inn í þingið. 

Meðal annars er myndskeið af því þegar hópur karla braut glugga á vesturhlið hússins og braust þar inn. Einn lögreglumaður var þar á vakt og réði ekki við fjöldann. 

Jamie Raskin, einn þeirra Demókrata, sem leiða ákæruferlið, sagði í dag að Trump hafi verið aðalhvatamaður innrásarinnar, eða eins og hann orðaði það á ensku „inciter in-chief“.

Tveir þriðju þingmanna öldungadeildarinnar þurfa að vera því sammála að Trump sé sekur til að hann verði sakfelldur og er talið ólíklegt að svo verði. 

Hægt er að sjá hluta myndbandanna í spilaranum hér fyrir ofan.