Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Byrjuð að sauma búninga fyrir Eurovision-myndbandið

Mynd með færslu
 Mynd: Árný - Aðsend

Byrjuð að sauma búninga fyrir Eurovision-myndbandið

10.02.2021 - 13:36

Höfundar

Daði og Árný í Gagnamagninu hafa síðustu daga birt fjölda mynda á samfélagsmiðlum þar sem þau fást við óvenjulega búningagerð. Þar nota þau það sem til er, svampdýnur, forláta vinnubuxur, gærubúta og ýmis gömul raftæki.

Margir hafa ályktað að hjónin standi í stórræðum fyrir öskudaginn, sem er í næstu viku, en svo er ekki. Búningagerðin er fyrir tónlistarmyndband við nýtt Eurovision-lag Gagnamagnsins. Lagið verður frumflutt á RÚV í mars. 

„Við erum að hanna búninga fyrir tónlistarmyndbandið okkar. Við höfum verið að nota gamla hátalara og önnur raftæki af ruslahaugunum. Svo er mamma Daða að hjálpa okkur að nýta gamla gærubúta. Gömlu sveitabuxurnar frá pabba fá líka nýtt hlutverk og svo má ég ekki gleyma að minnast á svampdýnuna sem við fundum á háaloftinu heima. Hún kemur að góðum notum“, segir Árný. Hún segir að þau hjónin séu einnig að leira og sá skúlptúr verði hluti af búningnum hennar. „Við skulum uppljóstra því að þetta eru skrímsli og vélmenni“, segir Daði sem er þessa dagana að leggja lokhönd á framlag Íslands í Eurovision.

Mynd með færslu
 Mynd: Árný - Aðsend

„Við stefnum á upptökur um helgina ef veður leyfir. Við rýnum í veðurspána á hverjum degi og vonumst til að geta haldið plani. Vonandi verður ekki of blautt og bjart“, segir Árný en myndbandið verður að hluta til tekið upp utandyra. Birta Rán Björgvinsdóttir og Guðný Rós Þórhallsdóttir leikstýra myndbandinu.  

„Við verðum líka með tæknibrellur enda skrímsla- og vélmennaþema eins og Daði var að uppljóstra rétt í þessu. Þau atriði verða tekin upp inni með „green-screen““, segir Árný. Hún segir að landsmenn þurfi þó ekki að örvænta yfir klæðnaði Gagnamagnsins í myndbandinu og í keppninni sjálfri því Lovísa Tómasdóttir klæðskeri hefur yfirumsjón með búningunum. Daði og Gagnamagnið keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Rotterdam í Hollandi í maí.

Heimildarþættir um sögu Daða og Gagnamagnsins  verða sýndir á RÚV 27. febrúar og 6. mars.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lagið frumflutt 13. mars — Keppnishugur í Daða

Tónlist

Daði og gagnamagnið á topp tíu lista Time