Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bóluefni Novavax og Valneva koma til greina

epa09000821 A doctor administers vaccine to a care personnel at the terminal C of former Berlin airport Berlin Tegel, converted into the 4th vaccination center in Berlin, Germany, 10 February 2021. The vaccination center starts its operations by vaccinating care personnel and medical staff.  EPA-EFE/KAY NIETFELD / POOL
 Mynd: EPA-EFE - DPA POOL
Raunhæft er að búast við því að talsvert meira muni berast hingað til lands af kórónuveirubóluefnum strax á næsta ársfjórðungi; á tímabilinu apríl til júní. Líklegt er að framleiðslugeta lyfjaframleiðendanna verði meiri og þess er vænst að fleiri bóluefni verði þá búin að fá markaðsleyfi, þar á meðal frá tveimur framleiðendum sem Evrópusambandið á nú í viðræðum við. Ekki liggja fyrir afhendingaráætlanir til lengri tíma en til loka marsmánaðar.

Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um afhendingu kórónuveirubóluefna og samninga um þau.

Ísland hefur nú samið um afhendingu bóluefnis við fimm af þeim sex framleiðendur kórónuveirubóluefnis sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samið við, það sem út af stendur er lyfjafyrirtækið Sanofi. 

ESB á í viðræðum við tvo framleiðendur til viðbótar. Það eru bandaríska lyfjafyrirtækið Novavax um allt að 200 milljón skammta, en bóluefni þess er nú í svokölluðu áfangamati hjá Lyfjastofnun Evrópu, og franska líftæknifyrirtækið Valneva um allt að 60 milljón skammta. Þessi bóluefni munu einnig koma til greina hvað Ísland varðar, samkvæmt svari ráðuneytisins.

Þar segir að ekki liggi fyrir staðfestar afhendingaráætlanir til lengri tíma en loka mars.