Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Andrés Ingi til liðs við Pírata

Mynd með færslu
 Mynd: Píratar
Andrés Ingi Jónsson alþingismaður ætlar að ganga til liðs við Pírata. Hann var kjörinn á þing í kosningunum 2016 fyrir Vinstri græn en hefur síðustu misseri setið á þingi utan flokka. Andrés Ingi og Rósa Björk Brynjólfsdóttir sögðu sig úr flokknum haustið 2019 en þau studdu ekki stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Andri Ingi segir í tilkynningu að þetta hafi ekki verið einföld ákvörðun en hann vilji vera hluti af hóp sem sé hægt að treysta til að taka djarfar ákvarðanir. „Frá því að ég hóf störf sem þingmaður hef ég alltaf unnið vel með Pírötum á þingi. Það er sama hvort litið er á aðgerðir í kringum uppreist æru, baráttuna fyrir réttindum hælisleitenda eða almennt samstarf okkar í fastanefndum þingsins - hugmyndafræði okkar hefur átt vel saman.“

Þingflokkur Pírata samþykkti einróma að bjóða Andrés Inga velkominn í hópinn á þingflokksfundi í morgun. „Andrés er gríðarlega öflugur þingmaður sem hefur áorkað miklu einn síns liðs og er því mikill fengur fyrir þingflokk Pírata. Hann er hugsjónamaður með sterka réttlætiskennd sem þorir að færa rök fyrir stórum hugmyndum. Við lítum því á inngöngu Andrésar í þingflokkinn, sem og flokkinn í heild, sem góðan liðsstyrk fyrir verkefnin framundan,“ segir í tilkynningunni. 

Andrés Ingi segist ætla að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í vor. Píratar raða á framboðslista í prófkjörum í mars. Framboðskynningar verða á vefnum 1. til 5. mars og prófkjörið stendur yfir 3. til 13. mars.