Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill ekki bíða fram á elleftu stundu með Pfizer-umræðu

09.02.2021 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, segir að ef þjóðin verði til rannsóknar hjá alþjóðlegu fyrirtæki sé eðlilegt að það verði upplýst þjóðfélagsumræða í aðdragandanum um skilyrði og eðli rannsóknarinnar. Það sé umræða sem megi ekki bíða þar til á elleftu stundu. Sóttvarnalæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar eiga í dag fund með fulltrúum bandaríska lyfjaframleiðandans Pfizer um bólusetningu á þjóðinni í rannsóknarskyni.

Tímabært að eiga upplýsta umræðu um rannsóknina

„Er samþykki fyrir því að taka þátt í rannsókninni er það skilyrði þess að fá bólusetningu? Eins spyrjum við líka af því það er verið að kanna, skilst okkur, hjarðónæmi sem myndist þá þegar ákveðið hlutfall þjóðarinnar hefur verið bólusett. En hvað þá með hin sem út af standa, þurfa þau þá að bíða eða hvernig verður þessari rannsókn háttað? Þetta verður sjálfsagt upplýst. En okkur finnst það fyllilega tímabært. Að bíða ekki með það fram á elleftu stundu, því þá er kominn svo mikill þrýstingur. Auðvitað vill fólk vera bólusett, en það þarf ákveðna upplýsta umræðu í aðdragandanum,“ segir Vilhjálmur.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segja fimm siðfræðingar við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Stokkhólms-háskóla bóluefnisrannsókn vekja ýmsar áleitnar spurningar. Til dæmis hvernig slík rannsókn á íslensku þjóðinni eigi að gagnast allri heimsbyggðinni. „Okkur finnst mikilvægt að fá það þá fram í hverju er þessi gagnsemi fólgin, hvernig er hægt að sýna fram á að hún gagnist öðrum þjóðum. Okkur finnst það svona fyrir fram ekki augljóst.“

Gæti rannsóknin skaðað orðspor Íslands?

Þá segir Vilhjálmur að forgangur Íslands að bóluefni með þessum hætti geti haft áhrif á alþjóðasamstarf Íslands. Þau spyrja sig hvernig slík rannsókn samrýmist markmiðum alþjóðastofnana að tryggja jafnt aðgengi allra þjóða að bóluefni. „Við veltum því til dæmis upp, getur þetta skaðað orðspor þjóðarinnar að vera að fá einhverja svona sérmeðferð? Að vísu er hún réttlætt í nafni þess að þarna sé mikilvæg rannsókn, þá viljum við fá það útlistað - í hverju er hnattrænt mikilvægi þessara rannsóknar fólgin?“ spyr Vilhjálmur.