Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Útiganga yfir veturinn sé ekki slæm fyrir hrossin

09.02.2021 - 22:38
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun segir að útiganga yfir veturinn sé ekki slæm fyrir hross ef rétt er að málum staðið. Það sé stöðugt verkefni að fylgjast með velferð hrossa, en þar hafi hún ekki mestar áhyggjur af útigangi.

Veðrið undanfarnar vikur hefur verið vont á norðanverðu landinu og víða snjóað mikið. Fjöldi hrossa er á útigangi og þegar svona árar hafa margir áhyggjur af velferð þeirra og telja þessar aðstæður skaðlegar fyrir hrossin.

Þeir sem þekki hrossin viti að þau ráða vel við aðstæðurnar

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segist skilja þessar áhyggjur. „Já, já, ég skil það alveg að vissu leyti, vegna þess að ég átta mig á því að fólk hefur kannski ekki aðstæður til að kynna sér þetta nógu vel." En með því að kynnast hrossunum og eiginleikum þeirra og sinna þeim í alls konar veðri, komi fljótt í ljós hve vel þau eru tilbúin í þessar aðstæður.

Hrossin verði að undirbúa vel fyrir veturinn

Það skipti miklu máli hvernig hross eru haldin þegar vetur skellur á. „Og þá er auðvitað mikilvægt að hrossin fái tækifæri til að safna aðeins forða. Þá þurfa þau að vera á góðri haustbeit þannig að þau séu með ágætt fitulag," segir hún. Þá verði að flokka hross eftir fóðurþörf. Hryssur, folöld og trippi í vexti þurfi til dæmis meira fóður en hraustir fullorðnir hestar. „Og bara umfram allt að fylgjast reglulega með holdafari. Holdafarið er besti mælikvarðinn á það hvernig þau þrífast og hvernig þeim líður."

Skylda að bregðast við ef dýr þrífast ekki eðlilega

Þótt ekki sé krafa um húsaskjól í reglugerð um velferð hrossa segir Sigríður það samt æskilegt. Eigendurnir verði að þekkja hvert hross og sjá strax ef í stóðinu eru dýr sem ekki þrífast eðlilega. „Þá er það algerlega skylt að bregðast við því."

Segir almennt vel hugsað um hross á útigangi

Og við nútíma aðstæður, rúlluhey og vélar til að koma fóðri í hrossin, eigi að vera sáraeinfalt að komast hjá því að hross á útigangi líði skort. Alltaf séu þó á hverjum tíma einhverjir veikir hlekkir. „Það er endalaust verkefni í sjálfu sé að fylgjast með og tryggja velferð hrossa," segir hún. „Af því hef ég ekki mestar áhyggjur af útigangi. En vissulega geta verið aðstæður einhversstaðar þar sem brestur verður á þessu eftirlit og þessum aðbúnaði. Og við erum alltaf með stök þannig tilfelli. En það er ekki hið almenna vandamál."

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV