Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þúsund manns ætla að hlaupa hringinn um Heimaey

09.02.2021 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Helgi Jensson - Aðsend mynd
Um þúsund manns hafa skráð sig til þátttöku í The Puffin Run, 20 kílómetra hlaupi í náttúru Heimaeyjar, í byrjun maí. Þetta eru þrefalt fleiri þátttakendur en fyrir ári síðan og tífalt fleiri en árið 2019 þegar hundrað manns tóku þátt. Mikil aukning hefur verið í þátttöku fólks í utanvegahlaupum síðustu ár, og algjör sprenging eftir að COVID-faraldurinn hófst. Rokselst hefur í fjölda skipulagðra hlaupa og nokkur ný hafa litið dagsins ljós.

Magnús Bragason, skipuleggjandi hlaupsins, hefur haldið utan um The Puffin Run síðan það var fyrst hlaupið árið 2018. Fimmtíu tóku þátt í fyrsta hlaupinu og hundrað ári síðar. Í fyrra var The Puffin Run fyrsta hlaupið sem haldið var eftir að allt lá niðri vegna fyrstu bylgju faraldursins. Þá var lokað fyrir skráningar þegar 300 manns höfðu boðað sig í hlaupið. Magnús segir að það hafi verið fjöldi „sem mig dreymdi ekki um áður.“

Metfjöldi í miðjum heimsfaraldri

Hlaupið í fyrra bar þess merki að vera haldið í heimsfaraldri, ræst var í áföngum svo að hlauparar blönduðust ekki of mikið saman í byrjun og móttaka í marki tók mið af því að virða fjarlægðarmörk og samkomutakmarkanir. Magnús segir að það sé þó alveg ljóst að ekkert verði af hlaupinu í ár ef COVID-19 setur því enn takmörk hvað hægt er að gera, farið verði í einu og öllu eftir því sem sóttvarnayfirvöld fyrirskipa og engin áhætta tekin. Fari svo að hlaupið falli niður fái allir endurgreitt.

Utanumhaldið í kringum hlaupið er mun meira en áður. Fjórfalt fleiri starfsmenn verða í kringum hlaupið til að þjónusta þrefalt fleiri hlaupara en í fyrra. „Við finnum ótrúlegan velvilja fólks að þetta gangi upp,“ segir Magnús. Hann segir utanvegahlaup vera góða leið til að kynnast náttúru landsins. „Ef við göngum vel um náttúruna geta þessi hlaup orðið mjög vinsæl.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Helgi Jensson - Aðsend mynd

Í fyrra var spænskur maður á ferð um landið sem vinnur að ferðamálum. Hann fékk að fylgjast með hlaupinu og hreifst mjög af, segir Magnús. Sá spænski sá fyrir sér mikla vaxtarmöguleika og sagði Magnúsi að hann þyrfti að setja mér markmið um fjölda. Magnús segir að það hafi komið sér í opna skjöldu þegar hann hafi nefnt töluna tvö þúsund. Nú var skráning stöðvuð þegar þúsund voru komnir á blað og engir útlendingar í þeim hópi, sem eru þó oft fjölmennir í hlaupum í venjulegu árferði. „Kannski vissi hann sínu viti.“

Stóraukin aðsókn í ýmis hlaup

COVID-faraldurinn virðist hafa haft góð áhrif á þátttöku í utanvegahlaupum, ef svo má að orði komast. Það seldist upp í Laugavegshlaupið á tæpum hálftíma eftir að skráning hófst í janúar. Í fyrra seldist upp í sama hlaup á þremur klukkustundum og fyrir fjórum árum gat fólk enn bókað sig þremur vikum eftir að skráning hófst. Vinsælustu vegalengdir í Hengill ulta hlaupinu seldust upp á skömmum tíma eftir að skráning hófst í nóvember. Hlaupið fer fram í júní.

Auk þess sem aðsóknin hefur aukist mjög í hlaup hefur nýjum hlaupum verið hleypt af stokkunum, svo sem North Ultra, 25 og 56 kílómetra fjallahlaupi á Tröllaskaga, og Fimmvörðuhálshlaupinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Laugavegur Ultra marathon
Laugavegshlaupið.