Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Spennandi tilraun sem hefði mátt hanga betur saman

Mynd: - / Pólis

Spennandi tilraun sem hefði mátt hanga betur saman

09.02.2021 - 11:06

Höfundar

Pólsk-íslenska leiksýningin Úff, hvað þetta er slæm hugmynd, sem sýnd er í Tjarnarbíói, er skemmtileg og spennandi tilraun sem skoppar í athyglisverðar áttir, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. Hún hefði þó mátt við meiri meiri úrvinnslu og aga.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Íslenskur leikari reynir að læra pólsku með duolingo. Pólsk improv-leikkona leitar að ást. Pólskan kokk á Skál dreymir um að verða sjónvarpskokkur. Þessar þrjár persónur mættust á sviði í Tjarnarbíói fimmtudaginn fjórða febrúar þegar verkið, Co za poroniony pomysl, Úff, hvað þetta er slæm hugmynd, var frumsýnt. Verkið fer fram að mestu á pólsku og er textað á ensku. Listræna teymið í kringum hana er þó að mestu íslenskt. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir leikstýrði, Birnir Jón Sigurðsson var henni innan handar sem dramatúrg, Þórdís Erla Zoëga hannaði sviðsmynd og búninga, og Kristinn Smári Kristinsson sá um tónlist.

Verkið hefst með því Ólafur Ásgeirsson, eini íslenski leikarinn í verkinu stígur á svið í íslenskum landsliðsbúningi og rekur hvernig hann notar appið duolingo til að læra pólsku. Það verður að segjast að fáir íslenskir leikarar á íslensku sviði hafa lagt jafnmikla vinnu í eitt hlutverk, því pólska er ekki auðvelt tungumál, hvorki málfræðilega né í framburði fyrir Íslendinga. Í sýningunni virðist Ólafur nánast altalandi, og þó svo ég hafi ekki pólskukunnáttuna til að meta hversu vel hann stendur sig, þá finnst mér það leiksigur út af fyrir sig.

Karakterarnir í verkinu eru byggðir á leikurunum sjálfum. Persóna Ólafs er til dæmis nefnd Óli, og er íslenskur leikari sem er mjög forvitinn um pólska samfélagið á Íslandi, og þetta sviðsverk er mjög áhugaverð tilraun til þess að opna þann heim fyrir þeim Íslendingum sem ekki þekkja til hans. Eða Ciekawe eins og Óli myndi eflaust orða það.

Með honum á sviðinu eru tveir aðrir leikarar, sem eru ekki leikhúsmenntaðir, en með mjög fína nærveru á sviði. Það er Jakub Ziemann, eða Kuba eins og hann nefnist í verkinu, sem er ástríðufullur kokkur með drauma um að komast í sjónvarpið, og svo Ola, sem er gælunafn, Alexöndru Skołożyńsku, spunaleikkonu. Þau tvö deila með okkur persónulegri reynslu sinni af því að flytja til Íslands. Kuba kom til landsins til að vinna og spara sér fyrir ferð um Asíu, en ílentist, en Ola varð fyrst skotin í landinu og ákvað svo að flytja hingað. Saga þeirra, í þeirri mýflugumynd sem hún birtist okkur var mjög athyglisverð, en sýningin gaf þó enga heildarmynd af neinni persónu heldur var meira skautað á yfirborðinu í stuttum sketsum.

Að vissu leyti minnir verkið Úff, hvað þetta er slæm hugmynd á Polishing Iceland sem einnig var sýnt í Tjarnarbíói. Polishing Iceland, sem sýnd var síðasta vetur, var töluvert drungalegri og dramatískari. Í báðum sýningum var blanda af atvinnu- og áhugaleikurum af pólskum og íslenskum uppruna, þrjú á sviði, tveir Pólverjar og einn Íslendingur að lýsa þeirri reynslu að flytja til Íslands. Ólíkt Polishing Iceland er Úff, hvað þetta er slæm hugmynd þó gamanverk. Það sem er athyglisvert við þessar tvær sýningar er að þær sýna að það er þörf fyrir sögur um nýtt samfélag pólskumælandi fólks á Íslandi og að setja samruna tveggja menningarheima, samskipti íslenskra og pólskra vina, og reynsluna af því að kynnast Íslandi á fullorðinsárum í eitthvert samhengi. Eflaust verða þessar tvær sýningar ekki þær síðustu því það er nægur efniviður og samfélagið er til staðar eins og var mjög augljóst á sýningunni. Margir áhorfendur af pólskum uppruna voru í salnum og tóku þátt í sýningunni með því að skjóta inn bröndurum og hlæja á augnablikum þar sem ekki var augljóst fyrir íslenskan áhorfanda sem fylgdist með enska textanum hvað nákvæmlega væri svona fyndið.

Bestu hliðar leiksýningarinnar voru náttúrulegur sjarmi Kuba og Olu á sviði, menntaskólalegur húmorinn og vel heppnuð söng- og dansatriði. Helsti ókosturinn er þó hversu illa sketsarnir hanga saman og skortur á heildarþræði. Úff, hvað þetta er slæm hugmynd er ekki slæm hugmynd en útfærslan er ekki alveg nógu góð. Stundum var Óli eins og fulláberandi aðskotahlutur sem sogaði til sín alla athygli án innistæðu. Sýningin hverfist að mestu leyti um löngun hans til þess að kynnast betur pólskri menningu, og í gegnum þá ferð kynnumst við spennandi karakterum eins og húsverðinum Geniek sem búið hefur á Íslandi síðan 2003 og Agnesi sem svarar ráðvilltum innflytjendum á pólsku fyrir Landsbankann, og virðist sú ráðgjöf og þjónusta sem hún sinnir mun viðameiri en einföld fjármálaráðgjöf. En því miður kemst aldrei almennilegur botn í þessa leit, leikritið fjarar frekar út, ekki bara án þess að gefa svör heldur án þess að spyrja spurninga. Sem er synd því að með góðu handriti hefði þessi leikhópur getað gert svo margt við þennan athyglisverða efnivið.

Sömu sögu verður að segja um sviðsmyndina sem skortir allan heildarbrag, og er jafn samhengislaus og sketsarnir. Þórdís Erla er mjög fær myndlistarkona, og persónulega var ég afar hrifinn af nýlegri einkasýningu hennar í galleríinu Þulu við Hjartarorg, en sviðsmyndahönnuður er hún ekki. Í það minnsta hefði sýningin grætt mikið á aðeins agaðri fagurfræði, alveg eins og sagan sem sýningin reynir að segja hefði grætt á meiri úrvinnslu.

Þrátt fyrir þessa vankanta er þetta spennandi tilraun , og skemmtileg sýning. Hún nær kannski ekki alltaf flugi, en hún skoppar, og skoppar stundum í athyglisverðar áttir. Stundum fangar hún einhvern kjarna um einmanaleika og firringu í kapítalísku þjónustusamfélagi, stundum er hún sprenghlægileg og leikararnir þrír gera allt sem þeir gera býsna vel, þó svo það hangi ekki alltaf saman.

Tengdar fréttir

Leiklist

Úff hvað þetta er slæm hugmynd!

Leiklist

Bjóða Pólverja velkomna í leikhús á Íslandi