Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Samþykkja að halda áfram réttarhöldum yfir Trump

09.02.2021 - 22:40
epa08999818 David Schoen, lawyer for former President Donald Trump, gestures to the media as he walks off the Senate floor after the conclusion of the first day of the second impeachment trial of former President Donald Trump in the Senate, in the US Capitol in Washington, DC, USA, 09 February 2021. The second senate impeachment trial of former US President Donald J. Trump begins today on charges of incitement of insurrection for his role in 06 January violent attack on the US Capitol.  EPA-EFE/Andrew Harnik / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld að halda áfram réttarhöldum yfir Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, og hafna þannig málflutningi verjenda Trumps um að ákæran brjóti í bága við bandarísku stjórnarskrána.

56 öldungadeildarþingmenn samþykktu að halda áfram réttarhöldunum og 44 greiddu atkvæði gegn því. Sex þingmenn Repúblikanaflokksins samþykktu áframhald; Susan Collins, Lisa Murkowski, Ben Sasse, Pat Toomey, Mitt Romney og Bill Cassidy. 

Á myndinni sem fylgir fréttinni sést David Schoen, einn af verjendum forsetans fyrrverandi, ganga út úr þingsalnum að lokinni atkvæðagreiðslunni. 

Trump var ákærður fyrir að hafa hvatt mótmælendur til árásar á þinghúsið í Washington 6. janúar. Hann var ákærður í fulltrúadeildinni 13. janúar og hann er fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem er ákærður tvisvar til embættismissis.

Demókratar hófu málflutninginn á því að sýna myndskeið frá áhlaupinu á þinghúsið. Jamie Raskin, sem sækir málið fyrir hönd Demókrata, sagði að ef tekið yrði mark á röksemdum verjenda Trumps væri hætt við því að árásin gæfi fyrirheit um framtíð Bandaríkjanna. Verjendur Trump segja réttarhöldin pólitíska leiksýningu og vilja að málið verði fellt niður. 

Aðeins þurfti einfaldur meirihluti öldungadeildarþingmanna að samþykkja að halda áfram réttarhöldunum. Annað gildir þegar greidd verða atkvæði um það hvort Trump verði sakfelldur. Til að svo verði þarf aukinn meirihluta sem þýðir að tveir af hverjum þremur þingmönnum þurfa að samþykkja það. Þá þyrftu að minnsta kosti 17 þingmenn Repúblikanaflokksins að greiða atkvæði með sakfellingu, ásamt öllum þingmönnum Demókrataflokksins.

Trump æfur við verjendur sína

Þeir voru fleiri Repúblikanarnir en þeir sex sem greiddu atkvæði með áframhaldandi réttarhöldum sem þótti málflutningur verjenda slakur. John Cornyn, öldungadeildarþingmaður fyrir Texas, sagði til að mynda að þetta væri fjarri því að vera góð frammistaða verjenda. Þeir hafi vaðið samhengislaust úr einu í annað. Ted Cruz, einn dyggasti stuðningsmaður Trumps í öldungadeildinni, sagði við Washington Post að honum hafi ekki þótt lögmennirnir skila af sér góðu starfi.

Heimildir fjölmiðla vestanhafs herma að Trump hafi látið verjendur sína heyra það eftir frammistöðuna í dag. Ráðgjafi forsetans fyrrverandi tjáði blaðamanni New York Times að frammistaða lögmannsins Bruce Castor hafi vísvitandi verið ruglandi. Þannig hafi hann verið að reyna að lægja öldurnar í þingsalnum.

Verjandinn Bruce Castor hóf málflutning sinn í kvöld á því að hrósa ákæruvaldinu fyrir glæsilega frammistöðu. Um hálftíma síðar, eftir tiltölulega innihaldslausa ræðu án teljandi varnartilburða, lauk Castor máli sínu á því að ákæruvaldið hafi komið verjendum í opna skjöldu með myndbandinu og málflutningi sínum. Seinna eigi þeir þó eftir að heyra öflug mótrök. Við tók verjandinn David Schoen, sem sagði það beinlínis hættulegt að halda réttarhöldunum áfram. Þau gætu jafnvel hrundið af stað nýju borgarastríði í Bandaríkjunum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV