Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikil óvissa og spenna í forsetakosningum í Ekvador

09.02.2021 - 03:05
epa08997221 A woman works in the Provincial delegation of Pichincha of the Ecuadorian National Electoral Council (CNE), where the results of the 2021 presidential elections are received, in Quito, Ecuador, 08 February 2021. Ecuador is waiting to meet the rival of the correista (left wing) candidate for the Presidency, Andres Arauz, for the second round of elections on April 11, since with 97.85 percent of the records processed, the indigenous environmentalist Yaku Perez and the center-right Guillermo Lasso have a bitter dispute.  EPA-EFE/Jose Jacome
Frá talningu í aðalstöðvum landskjörstjórnar í Ekvador. Mynd: EPA-EFE - EFE
Enn er óvissa um hver mætir sósíalistanum Andres Arauz í seinni umferð forsetakosninganna í Ekvador 11. apríl, þar sem afar litlu munar á fylgi tveggja næstu manna í fyrri umferðinni, sem fram fór á sunnudag, og talningu ekki að fullu lokið.

Lög kveða á um, að takist engum frambjóðanda að tryggja sér annað hvort helming atkvæða og einu betur, eða 40 prósent atkvæða og um jafnframt 10 prósentustigum fleiri atkvæði en næsti maður, skuli kosið á milli tveggja efstu manna.

Búið er að telja 97,5 prósent atkvæða. Af þeim hefur Arauz fengið 32,3 prósent. Næstur honum er vinstrimaðurinn Yaku Perez, frambjóðandi bandalags frumbyggjaþjóða, með 19,8 prósent, en hægrimaðurinn Guillermo Lasso kemur fast á hæla honum í þriðja sætinu með 19,6 prósent atkvæða.

Perez ýjar að kosningasvikum

Dregið hefur saman með þeim Perez og Lasso á síðustu metrunum, og einnig lýsti yfirkjörstjórn því yfir á mánudag að fara þyrfti yfir um 14 prósent greiddra atkvæða vegna misræmis í talningu.

Perez sakar kosningayfirvöld um að beita óvönduðum meðulum til að koma í veg fyrir að hann komist í seinni umferð kosninganna, fyrstur frumbyggja.

„Þeir eru dauðhræddir við að við komumst í seinni umferðina," sagði Perez eftir tilkynningu kjörstjórnarinnar og ýjaði að því að allt að 15 prósent atkvæða sem skráð eru á aðra frambjóðendur hefðu í raun verið greidd honum.