Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Már kemur að Pfizer-viðræðum sem vísindamaður

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, verður ásamt Þórólfi Guðnason sóttvarnalækni og Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, á fundinum með fulltrúum bandaríska lyfjaframleiðandans Pfizer í dag. Þetta staðfestir aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans í samtali við Fréttastofu RÚV. Már kemur að viðræðunum sem vísindamaður á sviði smitsjúkdóma.

Fundurinn hófst klukkan fjögur og verður rætt um hugsanlega vísindarannsókn sem felst í því að öll þjóðin verði bólusett við kórónuveirunni.  Gert er ráð fyrir því að fulltrúar Pfizer leggi fram einhvers konar samningsdrög á fundinum. Lítist mönnum vel á drögin verða þau lögð fyrir ríkisstjórn, Vísindasiðanefnd og Persónuvernd. 

Heilbrigðisráðherra hefur fengið upplýsingar um hvað Pfizer hyggist fá út úr hugsanlegri rannsókn. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Þá segir ráðherra það ekki koma til greina að Pfizer hafi aðkomu að sóttvarnaaðgerðum hér á landi.