Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mannlegur samhljómur yfirgnæfir formúlurnar

Mynd: - / Netflix

Mannlegur samhljómur yfirgnæfir formúlurnar

09.02.2021 - 14:02

Höfundar

Sjónvarpsrýnir Lestarinnar, Katrín Guðmundsdóttir, elskar raunveruleikasjónvarp. Hún hefur þó stundum farið leynt með þessa ást sína þar sem það þykir ekki sérlega fínt að njóta slíks. Hér rýnir hún í tvær nýjar raunveruleikaseríur, Bling Empire og Blown Away, og sannfærir kannski suma um að láta af fordómum.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Ég elska raunveruleikasjónvarp. Ég hef verið hugfangin af því alveg síðan ég sá Survivor í fyrsta skipti á Skjá einum í kringum síðustu aldamót. Síðan þá hef ég meðal annars stúderað bílskúrssölur, byggingaframkvæmdir, líkamsmálningu, hundaþjálfun og kökuskreytingar, svo fátt eitt sé nefnt. Ég verð samt að viðurkenna að stundum horfi ég á raunveruleikasjónvarpið mitt í leyni, þar sem viðhorf fólks til þáttanna á það til að vera svolítið neikvætt og auðvitað vil ég ekki að smekkur minn eða jafnvel skynsemi sé dregin í efa. En raunveruleikasjónvarp er samt ekkert svo vitlaust. Þó svo að sumt fólk sem birtist í því sé það kannski, smávegis. Þvert á móti gefur það okkur greiðan aðgang að ýmsum örsamfélögum og menningarkimum sem að öðrum kosti væru flestum bæði fjarlægir og lokaðir heimar. Þannig á raunveruleikasjónvarp í raun meira sameiginlegt með fyrstu raunverulegu kvikmyndunum, svokölluðum raunmyndum sem sýndu bæði fólk og atburði í samfelldum myndskeiðum, heldur en nokkurt annað afbrigði miðilsins. Í tilefni af því langar mig að rýna aðeins í tvær nýjar þáttaraðir af þessu forna og mögulega æðsta formi kvikmyndalistarinnar á Netflix: The Bling Empire og Blown Away.

The Bling Empire er splunkuný sería sem veitir áhorfendum innsýn í líf asískra erfingja sem búa í Los Angeles í Bandaríkjunum. Framleiðandi þáttanna er Jeff Jenksins, snjöllum manni sem tók þátt í að búa til Kardashian æðið forðum daga, og eru eins konar viðbragð markaðarins við kvikmyndinni vinsælu Crazy Rich Asians, sem sótti einmitt innblástur í elítuna sem þættirnir fjalla um. Áhorfendur fylgja eftir fyrirsætunni Kevin, sem er nýlega fluttur til Kaliforníu þar sem hann hefur kynnst dekurrófunni Kane og nokkrum moldríkum vinum hans. Kevin var sem barn ættleiddur af venjulegri bandarískri millistéttarfjölskyldu og hefur því hvorki mikla þekkingu á asískri menningu né öllum þeim lúxus og glamúr sem fylgir lífsstíl yfirstéttarinnar. The Bling Empire svalar glápfýsnum okkar því tvöfalt. Annars vegar fáum við að gægjast inn í íburðarmikil partí, gaumgæfa sjaldgæfar demantshálsfestar á fallegum og vel strekktum hálsum og sjá nýja og hraðskreiða sportbíla leggja í stæði. Ekkert af því er  svo sem eitthvað nýtt, enda löngu orðið á hvers manns færi í gegnum Instagram og aðra sjónræna miðla. Hins vegar er mun fágætara og forvitnilegra að horfa upp á fólkið í þáttunum lýsa bæði ströngum hefðum og gildum úr þjóðmenningu sinni og fylgjast með tilraunum þeirra til að samlaga þau hinum frjálslynda og oft óheflaða lífsstíl sem Hollywood er þekkt fyrir.

Blown Away býður áhorfendum inngöngu í enn lokaðra samkvæmi, sem gerir þættina að einhverju athyglisverðasta raunveruleikasjónvarpi meginstraumsins í dag. Þetta er önnur þáttaröðin í æsispennandi samkeppni þar sem hæfileikaríkasta glerlistafólk heims keppist við að blása besta glerið. Í hverjum þætti er keppendum sett fyrir ákveðið verkefni sem krefst þess að þeir sýni bæði tæknilega færni og hæfni til listrænnar túlkunar. Verkefnin geta verið allt frá því að hanna ilmvatnsglas yfir í vitundarvakningu í loftslagsmálum og í lok hvers þáttar er blásari bágasta glersins sendur heim. Afþreyingargildi Blown Away er í raun tvöfalt líka. Það er ekki aðeins til komið vegna samkeppninnar og spennunnar við að fylgjast með fagmönnum skapa óvænta afurð úr kunnuglegum hráefnum, eins og við þekkjum til dæmis úr mörgum hönnunar- og matreiðslukeppnum. Skemmtunin sækir jafnramt í sérstöðu listgreinarinnar sem er í eðli sínu bæði öfgafull og dramatísk. Á köflum minnir hún einna helst á jaðaríþrótt. Löðrandi sveittir og másandi keppendur sýna okkur hversu líkamlega erfiður glerblástur er og þá er hættan á að eyðileggja verkið alltaf yfirvofandi þar sem minnstu mistök geta orðið til þess að margra klukkustunda vinna er til einskis. Útkoman er jafn viðkvæm og ferlið er grófgert og óhætt er að fullyrða að áhorfendur eiga aldrei eftir að líta gler sömu augum.

Í fljótu bragði virðast þessar tvær þáttaraðir kannski ekki eiga margt sameiginlegt, fyrir utan að tilheyra þeirri grein sjónvarpsefnis sem við kennum að jafnaði við raunveruleika. Og það er í sjálfu sér alveg rétt enda eru formúlur þeirra mjög ólíkar. Á meðan fyrri þættirnir leitast við að sýna það sem við myndum kalla óvenjulegt fólk gera venjulega hluti sýna þeir seinni okkur venjulegt fólk gera óvenjulega hluti. Myndræn framsetning dregur það kannski betur fram en nokkuð annað. Í lífsstílsþáttunum The Bling Empire er sem myndavélin sé fluga á vegg í glæsivillum erfingjanna í bland við örskot af sjónarrönd borgarinnar, pálmatrjám og iðandi verslunargötum. Þegar mikið liggur við er henni stundum stillt upp til að endurspegla tilfinningalegt ástand persónanna, svo sem öfund, yfirlæti og eftirvæntingu en þó aldrei svo áberandi að það rjúfi tilfinninguna fyrir því að maður sé á staðnum. Í keppnisþáttunum Blown Away er myndavélin aftur á móti mjög greinilega notuð til þess að fanga sköpunarkraft keppenda og draga fram bæði listræna og tæknilega hæfileika þeirra. Myndatakan er í raun heil listgrein út af fyrir sig. Aðdráttur er til að mynda notaður til að sýna form, áferð og liti glersins á eins nákvæman hátt og mögulegt er og dramatískar hægmyndir fanga liprar hreyfingar glerblásaranna í hita leiksins. Bókstaflega.

Enda þótt þættirnir séu vissulega ólíkir að þessu leyti er einhver mannlegur samhljómur með þeim sem yfirgnæfir formúlurnar. Það er reynsluheimur persónanna, erfiðleikarnir sem þær hafa þurft að yfirstíga í lífinu og lærdómurinn sem þær hafa dregið af því. Persónurnar fá tækifæri til að opna sig upp á gátt, upplifa sitt sanna sjálf, eða alla vega sjálfið sem þær sækjast eftir að vera, og deila erfiðleikum sínum og velgengni með áhorfendum. Áhorfendur fá að sama skapi tækifæri til að tengjast fólki tilfinningalega sem þá hefði kannski aldrei grunað að þeir ættu neitt sameiginlegt með. Eins og til dæmis ofdekruðum víetnömskum erfingja á fertugsaldri sem ræður einkaspæjara til að finna föður sinn sem yfirgaf hann á barnsaldri, í von um að fylla upp í tómarúmið í brjóstinu, nú eða fúllyndum glerblásara á miðjum aldri sem einangrar sig frá kollegum sínum því hann er svo bitur yfir því að hafa aldrei fengið að kveðja móður sína sem lést í bílslysi langt um aldur fram. Þessi tilfinningatengsl eru kjarninn í öllu raunveruleikasjónvarpi og ástæðan fyrir því að ég elska það svo mikið. Ásamt því að miðla fjarlægum og framandi heimum beint heim í stofu er það eins konar sammannlegur vettvangur fyrir sjálfsþekkingu og persónuþroska. Reynið svo að segja mér að raunveruleiksjónvarp sé vitlaust.