Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mál flugfreyja fyrir Félagsdóm — bíða endurráðningar

09.02.2021 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Fyrirtaka verður í Félagsdómi í dag í máli Flugfreyjufélags Íslands gegn Icelandair, en ágreiningur er um hvort fara hefði átt eftir starfsaldri við endurráðningar flugfreyja sem sagt var upp í fyrravor og voru síðan ráðnar aftur síðasta sumar. Deilan snýst um hvort um sé að ræða afturköllun uppsagna eða endurráðningu, í kjarasamningi flugfreyja er ákvæði um að fara eigi eftir starfsaldri við hópuppsögn og formaður félagsins segir að sterk hefð sé fyrir því sé að fylgja því við endurráðningar.

ASÍ höfðaði mál fyrir Félagsdómi fyrir hönd Flugfreyjufélagsins gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair  vegna þess að 70 flugfreyjur félagsins telja Icelandair hafa sniðgengið sig með því að horfa ekki til starfsaldurs þegar félagið endurréði 170 flugfreyjur af þeim 900 sem var sagt upp í fyrravor.

Meirihluti þessara 70 flugfreyja er kominn yfir fertugt og bjuggust þær við því að fá ráðningu aftur eftir að forsvarsmenn Icelandair höfðu sagt á starfsmannafundi að ráðið yrði aftur inn eftir starfsaldursröð.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagið ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá Icelandair um hvernig endurráðningum flugfreyja verði háttað fyrir sumarið, en ljóst sé að einhverjar verði ráðnar aftur. „Fólk er í startholunum. Við eigum von á ráðningum, en það er spurning um fjöldann og hvenær af þeim verður,“ segir Berglind.

Hún segir að hluti þeirra sem sagt var upp séu komin í önnur störf. „En svo er stór hópur sem bíður eftir að fá starfið sitt aftur. Flugfreyjufélagið hefur lagt áherslu á að þeir sem hafa lengstan starfsaldur fái starfið aftur, það er rík hefð fyrir því þó kjarasamningar kveði ekki á um það.“ 

Icelandair sagði um 95% flugfreyja sinna upp meðan á kjaraviðræðum stóð síðastliðið sumar. Þegar þær kolfelldu kjarasamning í júlí sagðist Icelandair ætla að ráða fólk úr öðru stéttarfélagi. Eftir að samningar náðust var um fimmtungur flugfreyjanna ráðinn aftur. Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands sagði við það tækifæri að aðför hefði verið gerð að grunngildum á íslenskum vinnumarkaði, uppsagnirnar jafngildi ólöglegu verkbanni og aðgerðum Icelandair hafi verið ætlað að hafa áhrif á afstöðu flugfreyja.