Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landsstjórn Grænlands missir meirihlutann

09.02.2021 - 16:45
epa05373930 US Secretary of State John Kerry (R), Danish Minister for Foreign Affairs Kristian Jensen (L) and Greenland Premier Kim Kielsen (C) during a tour to the Jakobshavn Glacier and the Ilulissat Icefjord, located 155 miles (250 km) north of the Arctic Circle, in Ilulissat, Greenland, 17 June 2016. Kerry is in Denmark for a two days visit.  EPA/BENT PEDERSEN DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Scanpix
Grænlenska landsstjórnin hefur ekki lengur meirihluta á þingi eftir að Lýðræðisflokkurinn tilkynnti í gær að hann væri genginn úr stjórninni. Eftir eru jafnaðarmannaflokkurinn Siumut og Nunatta Qitornai. 

Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar, sagði þegar hann tilkynnti að Lýðræðisflokkurinn hefði dregið sig út úr stjórnarsamstarfinu að tíðindin væru gremjuleg. Hann vonaði þó að staðan hefði ekki alvarlegar afleiðingar, en hinir flokkarnir ætluðu að starfa saman í minnihlutastjórn. 

Grænlenskir fjölmiðlar höfðu eftir Jens Frederik Nielsen, formanni Lýðræðisflokksins, að öngþveiti ríkti í Siumut flokknum. Formaðurinn Erik Jensen vildi breyta um pólitíska stefnu svo að ómögulegt væri fyrir samstarfsflokkana að átta sig á stöðunni frá degi til dags. 

Fréttastofa grænlenska ríkisútvarpsins greindi frá því í dag að formaður og varaformaður Siumut hefðu leitað eftir því við sjálfstæðisflokkinn Parti Naleraq að ganga til liðs við landsstjórnina, en Pele Broberg, formaður hans hefði hafnað því. Samstarf við Siumut væri útilokað eins og sakir standa vegna óeiningar innan flokksforystunnar.