Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísafjarðarbær selur á þriðja tug þjónustuíbúða

09.02.2021 - 12:36
Ísafjörður, Skutulsfjörður, Drónaskot Loftmynd, yfirlitsmynd,
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Ísafjarðarbær ætlar að selja 22 af 26 þjónustuíbúðum fyrir aldraða á Hlíf 1. Þær bætast við um hundrað aðrar leiguíbúðir sem eru á sölu. Þetta á að bæta skuldastöðu en líka fjármagna byggingu nýs knattspyrnuhúss á Ísafirði.

 

Íbúðirnar á Hlíf á Ísafirði eru þjónustuíbúðir en þeim sem þar búa var gert viðvart um ákvörðunina með bréfi þar sem segir að leitast verði eftir að söluferlið hafi sem minnst áhrif á þá. Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að ekki sé verið að selja ofan af fólki. 

„Þetta er hugsað þannig að semja um söluna við einhvern einn aðila sem væri tilbúinn til þess að kaupa íbúðirnar og þá með hagsmuni íbúanna í huga. Tryggja þeim áframhaldandi búsetu og svipuð leigukjör og eru í boði í dag.“ 

Þetta sé skref í að minnka skuldir sveitarfélagsins en enn eigi þó eftir að koma í ljós hve mikið fjármagn losni við söluna. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur versnað mikið í faraldrinum. 

Íbúðasala fjármagnar knattspyrnuhús upp á hálfan milljarð

Þegar eru um hundrað leiguíbúðir í eigu Ísafjarðarbæjar til sölu og bætast þessar 22 íbúðir þar við. Sala almennra leiguíbúða á að meðal annars fjármagna nýtt fjölnota knattspyrnuhús á Ísafirði sem á að kosta tæplega hálfan milljarð. 

Þú talar um að þetta sé gert til að bæta skuldastöðu sveitarfélagsins en er þá skynsamlegt að vera að fara að reisa þetta knattspyrnuhús?

„Það er skynsamlegt með tilliti til þess að við viljum geta boðið íbúunum okkar upp á góð búsetuskilyrði, það er að segja að það sé gott að búa í samfélaginu okkar?“

En það hlýtur að vera skiljanlegt að þetta tvennt saman, það lítur út fyrir að skjóta skökku við?

„Nei, ég sé þetta alls ekki skjóta skökku við.“

Vilja skoða uppbyggingu á nýjum íbúðum fyrir eldri borgara

Sala á þjónustuíbúðunum bjóði þá upp á önnur tækifæri. 

„Talandi um söluna á íbúðunum á Hlíf að þá með því að minnka skuldir bæjarins sem nemur söluandvirði eignanna þá opnast tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggingu á íbúðum fyrir aldraða að öðru leyti.“

Þó sé uppbygging nýrra íbúða fyrir aldraða ekki komin á dagskrá, heldur verði slíkir kostir skoðaðir í framhaldi af sölu þjónustuíbúðanna.