Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Alltaf læti þegar Þorpið og Brekkan mætast”

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

„Alltaf læti þegar Þorpið og Brekkan mætast”

09.02.2021 - 21:49
Leiks Þórs og KA í 32-liða úrslitum CocaCola bikars karla í handbolta annað kvöld er beðið með mikilli eftirvæntingu á Akureyri.

Bæði lið leika nú í úrvalsdeildinni en þar er Þór með 2 stig en KA sjö.

Rígur stuðningsmanna félaganna er landsþekktur en leikmenn beggja liða æfðu af kappi í kvöld. Leikurinn á morgun verður í Höllinni, heimavelli Þórs, og þar æfðu Þórsarar í kvöld.

„Þetta eru nú bara meira og minna bara allt saman kunningjar þessir drengir en vissulega er örugglega einhver rígur inni á milli sem brýst út þegar komið er inn á völlum. Þetta er eins og alltaf þegar Þorpið og Brekkan mætist, þá verða einhver læti,“ segir Þorvaldur Sigurðsson, þjálfari Þórs.

Þorvaldur var á sínum tíma fyrirliði Þórs en þjálfari KA, Jónatan Þór Magnússon, var einmitt lengi fyrirliði KA og hann stýrði snarpri æfingu sinna manna í KA heimilinu. Jónatan viðurkennir að rimmur liðanna séu langt frá því að vera eins og hver annar leikur.

„Ég hef sjálfur spilað all marga svona leiki og það hafa, í gegnum árin, verið svaka leikir. Þetta er náttúrulega bara rosalega gaman og skemmtilegt. Ég held að menn séu spenntir fyrir verkefninu,“ segir Jónatan.

Leikurinn annað kvöld verður í beinni útsendingu á RÚV 2 og hefst hún klukkan 19:25. Þór og KA hafa ekki mæst í bikarkeppninni í 23 ár, eða frá því liðin mættust í frægum leik 1998. Þá vann KA eftir mikla dramatík en bæði Jónatan og Þorvaldur spiluðu leikinn og einnig Sverre Jakobsson sem er í þjálfarateyminu hjá KA.