Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Allir menn forsætisráðherrans

09.02.2021 - 08:00
epa07254056 Bangladeshi Prime Minister Sheikh Hasina flashes the victory symbol after casting her vote at a polling station in Dhaka, Bangladesh, 30 December 2018. The last general election in Bangladesh was held in 2014. People are voting to select members of the national parliament, also known as Jatiya Sangsad.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nýleg uppljóstrun Al Jazeera-fréttastofunnar leiddi í ljós samvinnu glæpasamtaka við öryggissveitir ríkisins í Bangladess. Aðalleikarar þessar sögu eru auk forsætisráðherra landsins fjórir bræður, sem eru ýmist hátt settir embættismenn eða ótíndir glæpamenn.

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi, segir í Njálssögu. Já, bræður standa saman, þegar á reynir, allavega oftast. En hvað gera bræður sem eru í innsta hring forsætisráðherra ríkis? Hvað gera þeir þegar nokkrir þeirra eru dæmdir fyrir að myrða pólitískan andstæðing forsætisráðherrans? Um það fjallar þessi saga.

Sagan byrjar í Bangladess. Bangladess er í Suðaustur-Asíu og er áttunda fjölmennasta ríki heims. Þar búa yfir 160 milljónir. Bengalar eru 98% þjóðarinnar og yfir 90% landsmanna eru múslimar

Landið og svæðið á sér langa sögu en varð til í núverandi mynd eftir frelsisstríð sjálfstæðissinnaðra Bengala árið 1971. Her Pakistana reyndi að brjóta alla sjálfstæðistilburði á bak aftur lengi vel.

Talið er að hátt í þrjár milljónir hafi legið í valnum eftir frelsisstríðið og milljónir flúðu yfir til nágrannaríkisins Indlands.

Framganga pakistanska hersins skapaði þeim litlar vinsældir á alþjóðasviðinu og margar af skærustu stjörnum þeirra tíma töluðu máli Bengala í sjálfstæðisleit. Tónlistarfólk á borð við George Harrison, Bob Dylan og Joan Baez voru meðal þeirra sem ljáðu málefninu rödd sína. Tónleikar fyrir Bangladess voru haldnir í Madison Square Garden í New York, þeir eru gjarnan taldir einir fyrstu risa góðgerðartónleikar sem haldnir hafa verið.

Bangladesh söng fyrrum Bítillinn George Harrison á áðurnefndum tónleikum. Og ríkið Bangladess varð formlega til með þingræði, þjóðkörnum ráðamönnum og stjórnarskrá þar sem meginþemað var jöfnuður, mannleg reisn og samfélagslegt jafnrétti. Það gekk á ýmsu á áttunda áratugnum hjá nýstofnuðu ríki. Hungursneyð, valdarán, einræðistilburðir settu mark sitt á söguna. 

Þaulsætnasti forsætisráðherra landsins

Til að gera langa sögu stutta varð Sheikh Hashina forsætisráðherra landsins, og varð önnur konan til að gegna því embætti. Hún gegndi embættinu fyrst frá 1996 til 2001 og svo aftur allar götur frá árinu 2009. Hún er því þaulsætnasti forsætisráðherrann í sögu landsins. Hún er dóttir fyrsta forseta landsins, Sheikhs Mujibur Rahman. Hann var myrtur í valdaráni ásamt móður Hashinu og bróður hennar árið 1975. Hashina slapp við þá árás, var erlendis ásamt systrum sínum. 

En henni var sjálfri veitt banatilræði árið 2004. Yfir 20 létust þegar andstæðingar Hashinu gerðu árás með sprengjum og skotvopnum á fjöldafundi sem hún sótti. Nítján voru dæmd til lífstíðar fangelsisvistar fyrir árásina, þeirra á meðal sonur eins af andstæðingum Hashinu í pólitík. 

Stjórnartíð Sheikh Hashina, og svo sem forvera hennar allra í starfi, er efni í heilan Heimskviðu-þátt og gott betur en það, en það sem er til umfjöllunar hér eru nýjar upplýsingar um baktjaldamakk sem tengist forsætisráðherranum. 

Uppljóstrun Al Jazeera

Þessi saga skrifaði sig ekki sjálf. Hún er afrakstur þrotlausrar vinnu rannsóknarblaðamanna hjá Al Jazeera, deildar sem kallast I-Unit, Investigative Unit. Fréttaskýringin, sem birt var í síðustu viku, ber yfirskriftina All the Prime Minister’s Men, menn forsætisráðherrans.  

Þeir sem kallaðir eru menn forsætisráðherrans í rannsókninni eru fimm talsins, Ahmed-bræðurnir. Þeir ólust upp við þröngan kost í Bangladess en fóru hver í sína áttina í lífinu. Allavega á pappírum. Einn þeirra, Aziz, er nú hátt settur í hernum í Bangladess og náinn forsætisráðherranum Hashinu, hinir fjórir lögðu inn á glæpabrautina. Þrír þeirra eru enn á lífi, en sá fjórði, Tipu, var skotinn til bana árið 1999. Anis, Haris og Josef Ahmed unnu fyrir sér með gjörðum sem ekki þola dagsljósið. 

Í uppvexti bræðranna var það ekki ókunna að glæpaklíkur og pólitíkusar ættu í samkrulli, gættu hagsmuna hver annars. Sumir unnu skítverkin, aðrir tryggðu stöðu þeirra á móti. Allir græða. Fyrir því voru fjölmörg fordæmi. 

Morðið á Mustafa Raman

Árið 1996 var Mustafa Rahman skotinn til bana. Mustafa Rahman var sagður hafa haft tengsl við stjórnarandstöðuhreyfingu sem talin er hafa staðið á bak við morðið á fjölskyldu forsætisráðherrans Hashina rúmum tveimur áratugum fyrr. Hann var skotinn í húsasundi ásamt tveimur öðrum og fluttur helsærður á sjúkrahús. Þar gaf hann lögreglu vitnisburð, segir bræðurna Anis, Haris og Josef Ahmed hafa skotið sig samtals níu sinnum. Fimm dögum síðar var Mustafa allur, en vitnisburður hans sá sem saksóknari byggði málsókn gegn bræðrunum á. Bræðurnir þrír, Anis, Haris og Josef Ahmed voru ákærðir, og síðar dæmdir fyrir morðið á Mustafa Rahman. 

En við skulum að eins skoða hvað bróðirinn Aziz var að gera á meðan bræðurnir vermdu sakamannabekkina. Ári áður, 1995, varð Aziz Ahmed lífvörður Sheikh Hashinu. Nú verður ekkert mat lagt á tímalínuna sem hér er stillt upp, þetta er einungis upptalning á staðreyndum. Aziz verður lífvörður Sheikh Hashina árið 1995.

Ári síðar er maður, Mustafa Rahman , sem talinn er andstæðingur stjórnmálaflokks Hashinu, myrtur. Bræður lífvarðarins Aziz eru ákærðir fyrir morðið. 

Mánuði eftir að Mustafa Rahman  var skotinn til bana varð Hashina nýr forsætisráðherra Bangladess í fyrsta sinn. Sem fyrr sagði gegndi hún því embætti í fyrra skiptið fram til ársins 2001. Á meðan velktist mál bræðranna fyrir dómstólum.  

Mynd með færslu
 Mynd: Al Jazeera
Aziz Ahmed og Sheikh Hashina.

Sheikh Hashina var ekki lengur forsætisráðherra þegar loks fékkst niðurstaða í málið. Bræðurnir Anis og Haris voru dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar fyrir aðild að morðinu, þriðji bróðirinn Josef var dæmdur til dauða. Til þess kom þó ekki, dómi hans var síðar breytt í lífstíðardóm. Sheikh Hashina varð aftur forsætisráðherra Bangladesh árið 2009, ellefu árum síðar, árið 2018, var lífstíðarfanginn Josed Ahmed náðaður og gengur nú frjáls ferða sinna. 

Það gera reyndar Anis og Haris líka, þrátt fyrir að hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi árið 2001. Þeir virtust ekki áhugasamir um afplánun og stungu af úr landi. Sérfróðir segja slíkt illmögulegt nema að vera vel tengdur inn í stjórnkefið. En látum það liggja milli hluta. 

Hinir dæmdu morðingjar virðast lifa ágætu lífi í dag, í skjóli hershöfðingjans bróður síns Og um það snýst uppljóstrunin. Þar ber fyrstan að nefna hershöfðingjann Aziz Ahmed. Hann er náinn samstarfsmaður forsetans, sem fyrr segir. Aziz var fenginn til að hafa yfir umsjón með öryggismálum í aðdraganda kosninganna sem tryggði Hashinu endurkjör 2018. Honum var gert að halda mótmælum og stjórnarandstöðu í hæflegum skefjum, halda þessu öllu innan skynsemismarka. Hvort það sé honum að þakka eður ei þá varð hún forsætisráðherra aftur. Og þá stóð líklega til að launa tryggðina.

Aziz dröslaðist auðvitað um með morðdæmdu bræðurna á ferilskránni, eitthvað sem margir myndu eflaust úrskurða sem kusk á hvítflibbann.

Það var þá sem Josef var náðaður og mánuði síðar varð stóri bróðirinn hækkaður í tign. Hann gegnir nú embætti herráðsforinga í Bangladess.

Herinn í Bangladess spilar nokkuð stórt hlutverk í stjórnkerfinu og samfélaginu öllu. Tengsl hátt settra ráðamanna í hernum og þaulsætnasta forsætisráðherrans í sögu landsins, Sheikh Hashina, ættu því kannski ekki að koma á óvart. Eins og hjá mörgum tiltölulega nýjum ríkjum þrífst spilling víða í stjórnkerfinu. Á árlegum lista yfir spillingu var Bangladess í fyrra í 146. sæti af 180 löndum. 

Bræður á flótta undan réttvísinni

En hvað er þá að frétta af bræðrunum í sjálfskipuðu útlegðinni? 

Anis Ahmed, sá elsti þeirra flúði til Kuala Lumpur á meðan á réttarhöldunum stóð árið 1996. Það virðist þó ekki væsa um Anis Ahmed í útlegðinni, hann fannst í Malasíu eftir rannsóknarvinnu Al Jazeera. Og talandi um Kuala Lumpur, þar hittast þeir bræður reglulega og ráða ráðum sínum. Rannsóknarteymi Al Jazeera elti hershöfðingjann Aziz í eina slíka ferð þar sem hann hitti alla bræður sína. 

Hinn bróðirinn á flótta, Haris Ahmed, var dæmdur en afplánaði ekki dóm sinn og flúði land. Hershöfðinginn bróðir hans sér ekki bara í gegnum fingur sér með ákvörðun bróður hans, hann aðstoðaði hann við að koma sér upp nýju nafni og vegabréfi, og nýju lífi í nýju landi. Það þarf að leggjast í umtalsvert skjalafals í Banghladess til að útvega sér vegabréf. Þá var heppilegt að bróðirinn, hershöfðinginn Aziz Ahmed, var á þeim tíma yfirmaður landamæraeftirlits landsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Al Jazeera
Haris Ahmed sem nú kallar sig Mohammad Hasan.

Hann kallast nú Mohammad Hasan og býr í Búdapest í Ungverjalandi. Samkvæmt fréttaskýringu Al Jazeera lætur hann ekki beint gott af sér leiða í nýju landi. Hann hefur stofnað ótal fyrirtæki, verslanir, veitingastaði, gistiheimili og staðið í margs konar rekstri sem á það allur sameiginlegt að honum er lokað mjög samviskusamlega nokkrum mánuðum eftir opnun. Skólarbókadæmi um aðferðir við peningaþvætti, segja sérfræðingar sem rannsóknarteymið ræddi við. 

Hann er í alls kyns viðskiptum á yfirborðinu bæði í Ungverjalandi og frá Frakklandi, en raunin virðist vera samkvæmt rannsóknarblaðamönnum, að vopnasala sé það sem hann hagnist á. Og þið megið giska þrisvar hverjum hann er að selja vopn. Já, einmitt, hernum í Bangladess. 

Kaup á ólöglegum njósnabúnaði

Uppljóstrunin leiðir einnig í ljós að bræðurnir hafa milligöngu um að stjórnvöld í Bangladess kaupa njósnabúnað af Ísraelum, þjóð sem þeir eiga í engum opinberum viðskiptum við. Engir viðskiptasamningar eru í gildi á milli Bangladess og Ísrael, í vegabréfum íbúa Bangladess er þess getið að vegabréfið sé ekki í gildi í Ísrael. 

Búnaðurinn er hins vegar nýttur til að fylgjast grannt með pólitískum andstæðingum með aðferðum sem persónuvernd myndi tæpast kvitta upp á, meðal annars með því að hakka sig inn í og afrita farsímagögn þeirra sem þau vilja fylgjast með. 

Uppljóstrunin, allir menn forsætisráðherrans, sýnir viðskipti sem ekki þola dagsljósið. Viðskiptin eru framkvæmd annað hvort af þeim sem öllu ráða eða með þeirra vitneskju. Uppljóstrunin sýnir einnig að ekki sitja allir við sama borð þegar réttlæti er annars vegar í Bangladess. Það sýna myndir sem sýna bræðurna tvo sem stungu af frá fangelsisdómum skemmta sér saman í brúðkaupi frænda síns fyrir þremur árum. Meðal gesta í brúðakupinu voru auk bræðranna alla, forseti landsins Mohammad Abdul Hamid, sem virtist lítið kippa sér upp við strokufangana. 

Bræðurnir virðast allavega hafa komið ár sinni nokkuð vel fyrir borð, í skjóli hæstráðenda í Bangladess. Og þar með sannast líklega hið fornkveðna: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi 

Hér má svo heyra hlaðvarp Al Jazeera þar sem rannsóknarblaðamenn segja frá uppljóstrun sinni sem fjallað er um í þessum pistli. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV