Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

26 látin eftir flóðið í Uttarakhand og 170 enn saknað

09.02.2021 - 03:29
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Flóð í Asíu · Indland
epa08996969 A general view of an area near the Dhauliganga hydro power project after a portion of Nanda Devi glacier broke off, at Reni village in Chamoli district, Uttrakhand, India 08 February 2021. At least 19 people died and nearly 150 are still missing after part of the Nanda Devi glacier fell into the river, triggering a flood that burst open a dam in the Tapovan area of Uttarakhand's Chamoli district on 07 February 2021.  EPA-EFE/RAJAT GUPTA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Uttarakhand-ríki á norðanverðu Indlandi segja búið að finna 26 lík á flóðasvæðunum í Himalajafjöllum og að um 170 sé enn saknað. Yfir 2.000 manns úr her, slökkvilið og lögreglu vinna myrkranna á milli á hamfarasvæðinu í von um að finna fólk á lífi.

Feiknarjaki brotnaði úr jökulrönd Nanda Devi, næst hæsta fjalls Indlands, á sunnudag og féll niður í ána Dhauliganga. Af þessu varð mikil flóðbylgja sem sópaði í burtu lítilli virkjun og stórskemmdi aðra stærri, neðar í ánni. Flest hinna látnu og horfnu voru að störfum við virkjanirnar, sem enn voru ekki fullkláraðar.

Björgunarlið vinnur nú meðal annars að því að brjóta sér leið inn í virkjunargöng þar sem talið er að um 35 verkamenn hafi lokast inni. Flóðið eyðilagði líka brýr og vegi á og að hamfarasvæðinu, sem torveldar leitar- og björgunarstörf til muna.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV