Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðreisn stillir upp framboðslistum í fjórum kjördæmum

08.02.2021 - 17:49
Blaðamannafundur Viðreisnar
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Þrjú landshlutaráð Viðreisnar af fimm, í Reykjavíkurkjördæmum, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi, hafa tekið ákvörðun um að stilla upp framboðslistum fyrir Alþingiskosningar í haust. Jenný Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir í samtali við fréttastofu að uppstillingarnefndir hafi verið skipaðar í kjördæmunum fjórum og að nú sé vinna þeirra hafin. Sumar þeirra eigi fyrsta fund á allra næstu dögum en ekki sé búið að ákveða hvenær framboðslistar þurfa að liggja fyrir.

 

Hún segir að stjórn flokksins birti á næstu dögum auglýsingar þar sem lýst verði eftir áhugasömu fólki til að taka sæti á listum. 

Landshlutaráð Norðvestur- og Norðausturkjördæma taka fljótlega ákvörðun um það hvaða leið verður farin við röðun á framboðslista. 

Í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í dag segir að hvert landshlutaráð taki ákvörðun um hvaða aðferð er beitt við skipan framboðslista, í samræmi við samþykktir Viðreisnar. Verði uppstilling fyrir valinu skuli landshlutaráð skipa uppstillingarnefnd sem starfar samkvæmt reglum sem stjórn Viðreisnar setur. Framboðslistar verði bornir undir landshlutaráð og stjórn Viðreisnar til samþykktar.