Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vænst svara á fundi með Pfizer á morgun

Mynd: RÚV / RÚV
Á fundi síðdegis á morgun verður að líkindum skorið úr um hvort lyfjafyrirtækið Pfizer óski eftir að fram fari rannsókn hérlendis sem felst í að bólusetja tugþúsundir Íslendinga gegn kórónuveirunni. 

Samningsdrög liggja ekki fyrir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í dag að margar flökkusögur um rannsóknarverkefni Pfizer sem felst í fjöldabólusetningu hérlendis hefðu skotið upp kollinum undanfarið. 

„Hið sanna í þessu er að við höfum enn ekki fengið samningsdrög frá Pfizer,“ segir Þórólfur. 

Lengi hefur verið beðið eftir svari og oft verið sagt að niðurstaða sé á næsta leiti. En nú hillir undir niðurstöðuna. Samkvæmt heimildum Fréttastofu verður engra tíðinda að vænta þó fyrr en eftir fund með Pfizer síðdegis á morgun. 

Sótt verður um öll leyfi

Fá þarf leyfi hjá Persónuvernd og Vísindasiðanefnd verði rannsóknarverkefnið að veruleika. 

„Við myndum uppfylla öll skilyrði og allar kröfur áður en að yrði farið af stað.“

Eins og sjá mátti í sjónvarpsfréttum um helgina þá er búið að gera Laugardalshöllina þannig úr garði að hægt verður að bólusetja 500 manns á klukkustund. Hún myndi þó ekki duga ef bólusetja þarf þúsundir eða tugþúsundir á stuttum tíma. Í Hafnarfirði hefur verið talað um að nota íþróttahúsið að Ásvöllum. 

Skoðar að senda aftur tillögurnar um landamæri

Alþingi samþykkti breytingar á sóttvarnalögum í síðustu viku. Lagagrundvöllur var ekki í gömlu lögunum fyrir nokkrum landamæratillögum Þórólfs en nú er hann að athuga hvort hann sendir þær á ný og jafnvel fleiri: 

„Bæði það að krefjast neikvæðs PCR-prófs af fólki sem er að koma hingað til lands sem gæti verið 48 klst. gamalt eða þar um bil. Og svo hef ég líka sent tillögur um að fólk verði skyldað að fara í farsóttarhúsið til eftirlits á milli þessara tveggja sýnataka í þessa fimm daga.“

Fjögur smit á dag frá áramótum

Síðan um áramót hafa að meðaltali tæplega 240 farþegar komið daglega til landsins. Þeim fer fækkandi því að í síðustu viku var meðaltalið 170 farþegar á dag. Frá áramótum hafa 160 farþegar greinst með virkt smit ýmist í fyrri eða seinni skimun. Það er eitt og hálft prósent farþega að því er fram kom á upplýsingafundinum í morgun. Að meðaltali eru þetta fjögur smiti á dag. Flest virk smit hafa greinst í farþegum frá Póllandi eða 75 og næstflest í farþegum frá Spáni eða 16. Mörg dæmi eru um að farþegar fari ekki að reglum. En það á líka við um aðstandendur þeirra því að um helgina komu til dæmis 90 manns að sækja farþega á flugvöllinn. Það er bannað. 

Ekki ástæða til að hætta að bólusetja með AstraZeneca

Bóluefni AstraZeneca er ekki talið virka nægilega vel gegn suðurafríska afbrigði kórónuveirunnar samkvæmt nýrri rannsókn. Það hefur ekki áhrif á bólusetningu hér segir Þórólfur: 

„Ég tel að þessar upplýsingar séu ekkert það afgerandi að það sé einhver ástæða til þess að hætta að nota það bóluefni.“